sunnudagur, ágúst 02, 2009

Gerðafræði

Jæja það er barasta kominn ágúst. Verslunarmannahelgin og alles. Vona að þið séuð öll að njóta hennar til fullnustu. Hérna í Japan er enginn frídagur á morgun, en ég er að njóta sunnudagsins eins og á að gera - með því að slappa af og gera mest lítið.

Síðasta vika var ein fljótliðnasta(?) vika sem ég hef upplifað. Frá mánudegi til fimmtudags var gestakennari frá Tokyo Gaidai með hraðnámskeið í typology. Ég verð að viðurkenna að ég veit ekki alveg hvað skalla kalla það á íslensku, en skv. Orðabanka íslenskrar málstöðvar er það þýtt sem gerðafræði ellegar gerðaflokkun í bæði læknisfræði og uppeldis- og sálarfræði svo ætli það megi ekki nota sama heiti yfir það í málvísindum.

Námskeiðið sjálft var alveg skrambi skemmtilegt, en meðal annars var ég notaður sem tilraunadýr og spurður margra spurninga út í íslenskuna sem hinir notuðu síðan til þess að greina íslensku. Gaman að sjá hvað það átti erfitt með það - enda íslenskan alls ekkert auðveld - og hló ég oft með sjálfum mér að hinum ýmsu tilgátum sem komu upp.

Námskeið var frá morgni til kvölds flesta dagana og því lítill tími til annars, og ég held að ég hafi ekki eytt svona miklum tíma í kennslutímum yfir eina viku síðan ég var í menntó.

Núna í næstu viku, frá 6. til 8. ágúst er síðan Tanabata hátíðin. Ég þekki reyndar ekki mikið til hennar þannig að þið sem eruð forvitin um hana getið annað hvort lesið Wikipedia færsluna eða beðið eftir að ég skrifi nokkur orð um hana hérna eftir að hafa upplifað hana eftir viku eða svo.

2 Ummæli:

Anonymous Pétur sagði...

típólógía er einnig kölluð gerðafræði í fornleyfafræði

04 ágúst, 2009 16:23  
Blogger Mamma sagði...

Spennt að heyra meira um Tanabata hátíðina. Virkar mjög framandi.

07 ágúst, 2009 19:21  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim