sunnudagur, maí 10, 2009

Þá árið er liðið...

Þegar þetta er skrifað er ég að glápa á Formúlu 1 í sjónvarpinu. Í þetta sinn er kappaskturinn á Spáni, nánar tiltekið Barcelona, og ég get ekki varist því að minnast æðislegri ferð okkar pabba á spænska kappaksturinn fyrir rétt rúmu ári síðan.
Síðan þá hefur líka margt annað gerst. Það var um þetta leyti fyrir ári síðan að ég byrjaði að undirbúa umsóknina mína fyrir styrkinn sem ég er nú á, og ferlið við umsóknina var langt og strangt og þurfi ég meðal annars að skjótast heim úr miðju sumarfríi í Danmörku fyrir viðtal í tengslum við það.
Ég fór síðan í fyrsta sinn til Ameríku í ágúst, var þar viðstaddur brúðkaup vinkonu minnar og átti síðan nokkra frábæra daga með Stebba Þór í New York.
Ég lauk loks lokaritgerðinni minni við HÍ eftir mikið streð (og slef) þó að útskriftin sjálf sé reyndar ekki fyrr en núna í Júni. Þið fyrirgefið þó ég bjóði ekki til útskrifarveislu - nema kannski fyrir þá sem leggja það á sig að koma alla leið hingað, við getum séð til með það.
Ég varð frændi enn einu sinni þegar Katla Kristín Kristinsdóttir kom í heimin fyrir tæpu ári ef mér skjátlast ekki. Síðan þá hefur hún stækkað alveg alltof mikið, og ég hugsa að það sem ég sakna mest af Klakanum séu fimmtudagsheimsóknirnar hennar og Tedda.
Mamma hætti í vinnunni sinni (alveg rétt í tæka tíð held ég að megi segja), og er víst byrjuð í nýrri vinnu. Vonandi fílar hún sig vel þar.
Einar frændi og Helga hafa tekið Smáraflötina alveg í gegn og eru nýflutt þangað inn að ég heyri. Ég vona að þau eigi eftir að eiga margar góðar stundir þar.
Helgi brói byrjaði í MR, en sinnir náminu kannski ekki alveg jafn vel og maður hefði vonað. Allavega er það tilfinningin sem ég fæ. Kannski var ég alveg eins og hann þegar ég var í MR.
Simmi sneri aftur á skólabekk og byrjaði í ensku í háskólanum. Vona að hann plummi sig þar. Þegar ég byrjaði á fyrsta ári í enskunni við HÍ 2005 þá hafði ég ekki hugmynd um hvað ég yrði staddur nú í dag, þannig að hver veit nema að námið leiði hann líka á nýjar slóðir.
Jonni bróí byrjaði í nýrri vinnu (verð reyndar að viðurkenna að ég er ekki alveg viss með tímaröðina á því, tíminn flýgur stundum svo hratt að það gæti alveg verið að það hafi verið fyrir meira en ári síðan). Ég vona að þau hafi það öll gott þarna í Lundi, þó að krakkarnir séu reyndar að stækka alltof hratt.

Ég er nú örugglega að gleyma einhverju, en það hefur vissulega ýmislegt gert á þessum stuttu 12 mánuðum. Hver veit hvar maður verður staddur að örðum 12 liðnum.

Ég vona að þið fyrirgefið mér að bregða aðeins út af vananum hér á þessu bloggi og leyfi mér að skrifa um annað en fréttir af lífi mínu hér í Japan. Ég lofa að það verður ekki meira af þessu í bili - ætli það verði ekki ágætt að koma með annan póst um þetta eftir svona ár og geta þá litið um öxl og rifjað upp þessa færslu.

5 Ummæli:

Anonymous Gunna sagði...

Mér fannst þetta ljúf lesning, ég kvarta sko ekki. Það er sko alveg rétt að það getur ýmislegt gerst á heilu ári. Maður sér það helst á krökkunum hvað tíminn flýgur.

Ég hlakka til að sjá hvað gerist hjá þér og hver staðan verður eftir 12 mánuði, og ég vona svo sannarlega að þeir feli í sér amk eina heimsókn hingað því við söknum þín öll, sérstaklega Teddi sem spyr í hvert sinn sem við keyrum til ömmu og afa hvort þú sért ekki örugglega kominn heim :)

11 maí, 2009 08:11  
Blogger beamia sagði...

Mjög skemmtilegt að lesa, takk! Kvitta hér með fyrir innlitið :) Ég frétti það hjá Völlu og Stebba að þú værir farinn aftur út til Japan og finnst gaman að bloggið hafi öðlast nýtt líf! Bestu kveðjur frá Íslandi, Bjarnheiður

12 maí, 2009 00:17  
Blogger Mamma sagði...

Gaman aðlesa þennan pistil hér þér, það rifjast ýmislegt upp við það. Ég held líka að þetta ssé allt rétt með farið hjá þér, meira að segja hvenær Jonni hóf störf hjá svenska akademien en það var einmitt um miðjan maí í fyrra.

13 maí, 2009 02:16  
Blogger Einar sagði...

Takk fyrir innleggið Bjarnheiður, gaman að vita svona nokkurn veginn hverjir það eru sem lesa bloggið.

Svona í fyrstu þá minnti mig einmitt endilega að Jonni hefði hafið störf í maí í fyrra, en eftir því sem ég hugsaði meira út í það þeim mun meiri varð óvissan. Ég ætti kannski að fara að halda dagbók svo ég geti flett svona hlutum upp...

13 maí, 2009 18:37  
Anonymous Nafnlaus sagði...

15 maí 2008. þetta er bara alveg rétt.

14 maí, 2009 22:37  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim