þriðjudagur, nóvember 07, 2006

Fegurðarsamkeppni og fleira

Eins og ég minntist á í síðustu færslu, eða mig minnir allavega að ég hafi gert það, þá var hátíð í skólanum um helgina. Hátíðin skiptist í tvo hluta: annars vegar voru japönsku nemendurnir með hátið sem basically samanstóð af matarbásum, svona hálfgert eins og er á 17. júní þarna heima - nema hvað að það var boðið upp á meira en pulsur þarna - en auk þess voru líka ýmis skemmtiatriði. Hins vegar var svo alþjóðleg hátið sem skiptinemarnir hérna áttu hönd í, t.d. voru settir upp básar til að kynna ýmis lönd, Ísland var meira að segja þeirra á meðal en sem betur fer hafði ekki tekist að gabba mig í að taka þátt í því. Síðan voru sýndir dansar frá ýmsum heimshornum og stuttar örkennslur í nokkrum tungumálum og tískusýning og eitthvað fleira.
Alþjóðlega hátíðin fannst mér ekkert sérlega spennandi svo ég hélt mig bara frá henni en matarbásar japönsku nemendanna voru snilld og borðaði ég mikið og gott þarna en það sem var eftirminnilegast var tempura ice, en þar er semsagt búið að troða ís inn í bollu, veit nú ekki hvort þannig bolla hefur sérstakt heiti á íslensku en hún er ekki ólík bollunum sem við borðum á bolludaginn. Síðan er þetta allt saman djúpsteikt, bara í stutta í stund svo að bollan verður greasy og heit en ísinn bráðnar ekki. Þetta er semsagt alveg lummugott og nú veit ég svosem ekki hvort það sé hægt að fá þetta á Klakanum, en ef ykkur gefst tækifæri til þess að prufa þetta þá ekki hika.

Nú ég fór semsagt á hátiðina á laugardaginn, át mig pakksaddan, og síðan þegar var farið að skyggja - um 5, 6 leytið - þá rákumst við á fegurðarsamkeppni sem var í gangi í amphitheatrinu (ljótt orð sem verður enn ljótara við íslenska fallbeygingu) held ég að það sé kallað. Nú við skelltum okkur í áhorfendahópinn og stuttu síðar þá hófst keppni á milli áhorfendanna, en sigurvegarinn fékk að vera gestadómari í umræddri fegurðarsamkeppni. Keppt var í janken, en það er japanska heitið á rock-paper-scissor (hefur sá leikur eitthvað íslenskt nafn? og ekki segja steinn, pappír, skæri eða eitthvað þvíumlíkt, það er bara alltof asnalegt). Og viti menn, hver haldiði að hafi rústað þessu annar en undirritaður sjálfur? (já ég veit að ég undirrita ekki beint færslurnar hérna en þetta skilst nú samt vonandi). Ég var semsagt dreginn uppá svið og spurður nokkurra spurning sem ég gerði mitt besta við að muldra svör við og síðan slóst ég í hóp dómaranna.
Þegar hér var komið að sögu þá var bara einn liður eftir í keppninni, en það var búningasamkeppnin. Stúlkurnar 6 stigu semsagt hver á eftir annarri fram á sviði og sýndu búninginn sinn, en búningarnir samanstóð af hefbundnum kínverskum kjól, OL (jakkaföt sem kvennfólk í skrifstofuvinnu klæðist oft hér í Japan), Santa-san (Japanir kalla Heilagan Nikulás það, og nei hún var ekki með gerviskegg og kodda undir jakkanum - búningurinn var aðeins meira eggjandi en það), hefbundinn japanskur skólabúningur, kimono, og svo var eitthvað samansull af skólabúningi og íþróttabúningi. Síðan var hafist handa við atkvæðagreiðslu og kom í ljós að sú í kínverska kjólnum bar sigur úr b(í/ý)tum. Sjálfum kaus ég Santa-san, en sú kínverska var alveg þokkalega sexý svo ég var svosem ekkert fúll yfir útkomunni.

Þegar þessum ósköpum var lokið röltum við einn hring um hátíðarsvæðið og borðuðum kvöldmat og héldum svo heim.
Á sunnudaginn dröslaðist ég svo ekki á lappir fyrr en um 1 leytið og fór þá aftur á hátíðarsvæðið til að borða morgun-/hádegisverð og var það bara ansvilli ljúft en fyrir vikið varð ekkert úr ferð minni á sædýrasafnið en það verður bara síðar.

Í gær, mánudag, skrapp ég yfir til Kyoto eftir skóla, aðallega til að kíkja á Kiyomizu-dera í annað sinn en mér hafði verið bent á að fara þangað í lok október/byrjun nóvember því að haustlitirnir væru mjög fallegir þar. Þegar ég var svo kominn á svæðið var nú bara alls ekkert mikið um haustlitina, kannski af því að það er búið að vera óvenjulega hlýtt hérna um nokkurt skeið eða eitthvað, ég veit ekki alveg hvernig þetta virkar. Það var nú að vísu eitthvað aðeins komið af haustlitum og ég smellti af fjölmörgum myndum þannig að einhverjar hljóta að hafa tekist vel, og ætli ég setji ekki einhverjar myndir upp hérna svona þegar ég kem því að, en á núverandi hraða þá verður það einhverntimann árið 2007.

6 Ummæli:

Blogger Pétur sagði...

Hvað er þetta.. Alveg nauðsynlegt að þú kynnir Ísland...

Þú hefðir getað verið með lista:

アイズランドの食べ物は一番おいしい食べ物です!
1.羊のあたま。
2.くさったさめ
3. イタリのピザ

Menn hefðu fílað það í botn... eða eitthvað...En eins og þú sér þá man ég ekki hvernig á að skrifa pítsa eða ítalía...

Eða allavega hefðirðu getað sagt þeim eitthvað um Íslenska menningu.

アイズランドに車のうんてんしたときお酒を飲むほうがいいです。 それからアイズランドけえさつは酒がだいすっきです。。。

Ég vona að leyniþjónustan kunni ekki japönsku...

08 nóvember, 2006 01:20  
Blogger Ragna sagði...

vá ég sé þetta alveg fyrir mér - þú að vinna "rock, paper, scissors" og svo að dæma í fegurðasamkeppni ;) eða sko ég svona er að reyna að ímynda mér það ;)

08 nóvember, 2006 08:53  
Blogger Einar sagði...

Pétur ég held það skipti engu máli þó að leyniþjónustan kunni japönsku, japanskan þín er vel torskiljanleg.

08 nóvember, 2006 15:16  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Einar minn það eru ekki bara pylsur hér heima líka risa sleikjóar og kandís maður.

Þú ert líka að gleyma því að hér heima er líka unglingadrykkja á 17. júní.

09 nóvember, 2006 05:14  
Blogger Pétur sagði...

ええええええええええええええええええっ??????????????????????

日本語がスパ-じょうずです。

Jájá.

09 nóvember, 2006 06:00  
Anonymous Nafnlaus sagði...

à betri veitingastöðum er hægt að panta glace au four, sem er ís bakaður í ofni. ekki beinlínis tempura-djúpsteikt, en svona í teoríunni ekkert ólíkt.

09 nóvember, 2006 17:59  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim