laugardagur, júní 06, 2009

Tannburstar, rigning, farsímar og meiri rigning

Í dag er búið að rigna eins og hellt væri úr fötu. Venjulega er ég ekkert svo ósáttur við það á laugardegi, það gefur manni afsökun fyrir því að hanga inni og gera ekki neitt. Nema hvað að í dag þá hafði einhverjum sniðugum dottið í hug að hafa uppbótartíma í einum af japönskukúrsunum sem ég er í. Ég þurfti því að dröslast alla leið út í skóla og þrátt fyrir stóru fínu regnhlífina mína þá var ég auðvitað orðinn vel blautur þegar þangað var komið. Það sem verra er er að þetta er líklega bara upphafið á langri og leiðinlegri regntíð, en júni er einmitt tímabilið fyrir það hérna í Japan. Ef þetta verður jafn slæmt og í dag í einhvern tíma þá hugsa ég að ég neyðist til þess að kaupa mér stígvél og regnstakk - en það er svosem kannski ekkert svo vitlaust að eiga það.

Á öðrum nótum þá keypti ég mér nýjan tannbursta í gær. Sá sem ég var með var orðinn nokkuð vel notaður og búinn að sinna skyldu sinni. Það var hins vegar þannig að hvert sem litið var fann ég hvergi almennilega stærð á tannbursta. Það er margt smátt hér í Japan og greinilegt að tannburstarnir þeirra eru það líka, því ég efast um að það sem ég fann myndi nokkurn tímann flokkast sem tannbursti fyrir fullorðna á Vesturlöndum. Vandinn með svona litla tannbursta (sérstaklega þegar maður er vanur alvöru American-size tannburstum) er sá að það krefst alveg margfalt meiri vinnu að bursta tennurnir því hver stroka nær yfir minna svæði. Og þrátt fyrir að eyða margfalt meiri orku við burstunina þá finnst manni maður aldrei ná að bursta jafn vel og með alvöru tannbursta.
Hér fyrir neðan má sjá mynd af gamla og nýja tannburstunum mínum



en myndina tók ég á nýja farsímann minn. Já ég dreif mig loksins í það að uppfæra í alvöru nútíma græju sem getur gert meira en bara hringt og sent SMS. Á hinn bóginn skapast við það vandamál því síminn getur gert of mikið, þetta er allt of flókið dót. Og þar að auki er allur veraldarvefurinn opinn fyrir manni úr símanum, en ég er það vanur því að flakka um netið á alvöru tölvu að mér finnst allt of mikið vesen að vera eitthvað að bisa við það á farsímanum. Maður er svona hálfgert eins og fótalaus maður í pokahlaupi. Þó ég verði reyndar að viðurkenna að það er fínt að fá veðrið beint í símann. Ég þurfti nú enga veðurspá til að segja mér að það væri rigning í dag, en núna veit ég allavega að það verður rigning aftur á morgun.

Þá ætla ég bara að hanga inni.

2 Ummæli:

Blogger Mamma sagði...

Til hamingju með nýja símann og tannburstann! - Nú veit ég um hlut sem hægt er að senda þér út. Þú færð tannbursta þegar ég sendi þér vetrarfötin.

07 júní, 2009 02:29  
Blogger Mamma sagði...

Gleymdi að segja að í dag hefur verið besta veður sumarsins hingað til. Sól, sól og meiri sól. - Engin rigning. Varð bara að láta þig vita af þessu.

07 júní, 2009 02:31  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim