föstudagur, janúar 29, 2010

Inntökupróf búin, kominn í "vorfrí"

Já, inntökuprófunum í meistarnámi hérna lauk í gær. Allt í allt voru það 4 próf (eða 3 próf og eitt viðtal). Á miðvikudag var málvísindapróf og síðan fyrsta erlenda tungumál, sem í mínu tilviki var japanska. Á fimmtudag var annað erlenda tungumál - enska - og síðan viðtal þar sem kennararnir þrír í málvísindunum grilluðu mann.
Allt í allt þá finnst mér hafa gengið eins vel og við mátti búast, síðan er ekkert annað að gera en að bíða til 12. febrúar þegar að útkoman kemur í ljós.

Eins og ég minnsti á í síðustu færslu ef ég man rétt þá hefur ekki mikið annað borið á dagana núna síðustu vikurnar enda hef ég verið upptekinn í próflestri. Núna á næstu dögum fer samt allt að gerast. Eftir prófin í gær og í dag þá var ég að hjálpa hinum rannsóknarnemunum tveim í málvísindunum sem voru að flytja í nýtt húsnæði saman.
Við það þá fór mig líka mikið að langa til að flytja - alveg búinn að fá nóg af þessum dýragarði hérna á heimavistinni - sem er bara mjög passlegt af því að ég var búinn að finna mér íbúð í Desember og fæ hana loks afhenta núna næsta mánudag. Ég er reyndar ekki búinn að ákveða nákvæmlega hvenær ég flyt þangað endanlega því að það er ýmislegt sem ég þarf að útvega mér til þess að það verði lífvænlegt þar, m.a. ísskáp, þvottavél og síðan vildi ég helst ekki vera allt of lengi án internetsins, svo ég þarf að ganga í það núna eftir helga. Eitt sem ég er búinn að útvega mér fyrir nýju íbúðina er brauðrist - en það er bannað að vera með brauðrist (ásamt ýmsu öðru) hérna á vistinni svo að ég er búinn að vera án ristaðs brauðs núna í 10 mánuði - fyrir utan auðvitað vikurnar tvær sem ég var heima um jólin.

Eins og stendur í færslunni þá er ég kominn í vorfrí, sem stendur u.þ.b. frá lokum Janúar til miðs Apríls. Ég hugsa nú samt að ég reyni að nota tímann vel í að læra, einbeita mér að mínum rannsóknum og síðan ætlum við að vera með leshóp tengdan því að læra erlent tungumál. Auðvitað væri gaman að reyna að ferðast eitthvað í svona löngu fríi, en það veltur svolítið á því hvað það fer mikil peningur í flutninginn og ýmislegt tengt honum.

Ég hugsa að ég reyni að koma með nýja færslu fljótlega eftir helgi með myndir af nýja pleisinu, en þangað til: Áfram Ísland!

2 Ummæli:

Anonymous Gunna sagði...

Gott að heyra að prófin hafi gengið vel og að þú sért kominn í smávegis frí - hlakka til að sjá myndir af nýju íbúðinni og brauðristinni :)

30 janúar, 2010 06:46  
Blogger Mamma sagði...

Frábært að vita að prófin gengu vel - þú sagðir mér það nú reyndar á sunnudaginn þegar við töluðum saman í síma. Ég bíð spennt eftir myndum innan úr nýju íbúðinni en þú settir nú myndir af húsinu á bloggið fyrir jólin þannig að við vitum hvernig nánasta umhverfið er.

03 febrúar, 2010 18:03  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim