föstudagur, júní 26, 2009

Sumarið komið

Já það lítur út fyrir að sumarið sé komið hérna í Sendai. Eftir að hitinn hafði slefað hátt upp í 30° undanfarna daga þá náði hann loksins því marki í dag. Því miður eru engar strandferðir og sólböð hjá mér heldur bara lærdómur og voðalega lítið að frétta.
Læt ykkur síðan vita þegar hitinn fer í 35°...

miðvikudagur, júní 17, 2009

17. júní

Gleðilegan 17. júní. Hér í Japan er þetta bara hver annar dagur, en ég get ekki sagt að ég sakni þess mikið, enda er ég kannski ekki beint markhópurinn, en ég vona að þið lesendur séuð að njóta hátíðarhaldanna eða þá bara að nýta daginn í að hvílast vel.

Héðan að frétta er í raun ýmislegt og ekkert. Á föstudaginn og laugardaginn var málvísinda-"symposium" í skólanum þar sem komu einhverjir 8 prófessorar víðs vegar að úr Japan og m.a.s. einn alla leið frá Kalíforníu. Það var talað um margt athyglisvert þarna, þó ég geti ekki sagt að ég hafi skilið mikið í því sem verið var að blaðra um - en þó kom mér á óvart að hið háa plan málvísindanna sem fyrirlestrarnir voru á ollu meiri erfiðleikum en japanskan.
Þegar symposiuminu var lokið á laugardaginn var haldið út að borða með prófessorunum. Síðan var farið í karaoke. Með prófessorunum. Það var athyglisvert. Veitingastaðurinn sem var farið á á að vera eitthvað svaka fínt pleis og voru alls kyns kræsingar á boðstólnum en á heildina var ég ekkert sérlega hrifinn af því. Sem styrkir bara stoðum undir kenningu mína að það vanti ákveðna "high-class" bragðlauka í mig sem veldur því að mér finnst gourmet dót eins og humar og gæsapaté alveg núll spes. Má ég þá heldur biðja um eina með öllu.

Rigningartíðin átti að hafa byrjað í síðustu viku en það hefur haldist alveg merkilega þurrt hérna - 7, 9, 13 - þó að það hafi verið hálf rigningarlegt og jafnvel svolítið kalt undanfarna daga. Það var víst allt á floti í Tokyo og svæðum þar í kring í gær. Kannski liggur rigningunni bara ekkert á og er að taka því rólega á leið sinni hingað...

laugardagur, júní 06, 2009

Tannburstar, rigning, farsímar og meiri rigning

Í dag er búið að rigna eins og hellt væri úr fötu. Venjulega er ég ekkert svo ósáttur við það á laugardegi, það gefur manni afsökun fyrir því að hanga inni og gera ekki neitt. Nema hvað að í dag þá hafði einhverjum sniðugum dottið í hug að hafa uppbótartíma í einum af japönskukúrsunum sem ég er í. Ég þurfti því að dröslast alla leið út í skóla og þrátt fyrir stóru fínu regnhlífina mína þá var ég auðvitað orðinn vel blautur þegar þangað var komið. Það sem verra er er að þetta er líklega bara upphafið á langri og leiðinlegri regntíð, en júni er einmitt tímabilið fyrir það hérna í Japan. Ef þetta verður jafn slæmt og í dag í einhvern tíma þá hugsa ég að ég neyðist til þess að kaupa mér stígvél og regnstakk - en það er svosem kannski ekkert svo vitlaust að eiga það.

Á öðrum nótum þá keypti ég mér nýjan tannbursta í gær. Sá sem ég var með var orðinn nokkuð vel notaður og búinn að sinna skyldu sinni. Það var hins vegar þannig að hvert sem litið var fann ég hvergi almennilega stærð á tannbursta. Það er margt smátt hér í Japan og greinilegt að tannburstarnir þeirra eru það líka, því ég efast um að það sem ég fann myndi nokkurn tímann flokkast sem tannbursti fyrir fullorðna á Vesturlöndum. Vandinn með svona litla tannbursta (sérstaklega þegar maður er vanur alvöru American-size tannburstum) er sá að það krefst alveg margfalt meiri vinnu að bursta tennurnir því hver stroka nær yfir minna svæði. Og þrátt fyrir að eyða margfalt meiri orku við burstunina þá finnst manni maður aldrei ná að bursta jafn vel og með alvöru tannbursta.
Hér fyrir neðan má sjá mynd af gamla og nýja tannburstunum mínum



en myndina tók ég á nýja farsímann minn. Já ég dreif mig loksins í það að uppfæra í alvöru nútíma græju sem getur gert meira en bara hringt og sent SMS. Á hinn bóginn skapast við það vandamál því síminn getur gert of mikið, þetta er allt of flókið dót. Og þar að auki er allur veraldarvefurinn opinn fyrir manni úr símanum, en ég er það vanur því að flakka um netið á alvöru tölvu að mér finnst allt of mikið vesen að vera eitthvað að bisa við það á farsímanum. Maður er svona hálfgert eins og fótalaus maður í pokahlaupi. Þó ég verði reyndar að viðurkenna að það er fínt að fá veðrið beint í símann. Ég þurfti nú enga veðurspá til að segja mér að það væri rigning í dag, en núna veit ég allavega að það verður rigning aftur á morgun.

Þá ætla ég bara að hanga inni.