mánudagur, desember 18, 2006

Chillað á pakkanum og chillað á pleisnu í Doha

Já sem stendur er ég á Doha International Airport í Qatar (er á leiðinni heim á klakann svona fyrir þá sem hafa ekki verið að fylgjast með.
Nú upphaflega átti þetta stopp að vera 1klst45min eða svo, en þegar það var búið að borða flugvélina þá kom í ljós að það var einhver bilun í vökvadælikerfi (eða hvað sem hydraulics heitir nú á íslensku) einhversstaðar í vélinni, man ekki hvar. En þetta var semsagt svo alvarlegt og þarf víst það mikinn tíma að laga að það (hvar er Einar Þór þegar þarf á honum að halda?) var ákveðið að henda okkur úr á malbikið aftur - nei reyndar fengum við far aftur inn í flugvöllinn og var okkur boðið upp á morgunverð þar - og okkur verður svo troðið inn í aðra rellu núna eftir smástund.
Allt í allt um 2klst seinkun - gott að maður var með 10klst upp á að hlaupa í London í bið eftir Icelandair dollunni.

Uppfærsla: síðasta færsla endaði kannski svolítið snögglega, ég áttaði mig á því að ég þurfti að fara að koma með að hliðinu, en þá kom í ljós að það hefur orðið ítarlegri seinkun, 1.5klst eða allt í allt 3.5klst nema að það verði einhver meiri seinkun. Jæja þetta þýðir þá bara minni bið í London, verst að ég hefði frekar viljað nýta tíman þar til þess að kíkja í bæinn heldur en að hanga á netinu hérna í flugstöðinni. Oh well...

þriðjudagur, desember 12, 2006

Happy merry Christmas


Já Japanir eru mikið fyrir öfgar, og gott dæmi um það er einmitt "Happy merry Christmas" en það er eitthvað samansull af Merry Christmas og Happy Holidays geri ég ráð fyrir.


Happy merry Christmas!

Það líður vart á löngu fyrr en þeir ganga alla leið og segja Happy merry Christmassy Holidays eða eitthvað þvíumlíkt. Og toppa það svo með Happy merry happy Christmassy New Year Holiday eða einhverju álíka.

Annars þá er þessi mynd af litlum pappírspoka sem ég fékk gefins ásamt innihaldi hans, litlu dagatali og póstkorti með mynd af einhverju temple (alveg stolið úr mér hvar það er á íslensku...), sem verðlaun fyrir það að ég mætti í alla tímana í Reading & Writing kúrsnum núna í haust og kom aldrei of seint í þokkabót, en við vorum 7 minnir mig af um 15 eða svo sem uppfylltum þau skilyrði. Það virðist líka hafa komið sér vel að hafa mætt vel í tímana því lokaprófið gekk bara alveg skrambi vel þó ég segi sjálfur frá. Nú er bara að bíða og sjá hver einkunnin verður.

Sú bið verður að vísu ansi löng, skólinn sendir víst ekki út einkunnirnar fyrr en um miðjan janúar og þar sem ég verð á einhverju flakki þá þá kemst ég líklega ekki yfir þær fyrr en ég sný aftur í skólann 22. janúar. Annars er alveg óskiljanlegt af hverju þessi bið er svona löng, allavega skildist mér á einum amerískum prófessor hér að kennararnir hérna þyrfu að vera búnir að skila inn einkunnum mánudaginn 18. des, það er til þess að skólinn hafi þær við höndina þegar það er ákveðið hvort fólk fær að koma aftur á næsta misseri - já það þarf að viðhalda einhverri ákveðinni meðaleinkunn og má ekki falla í neinu fagi - og niðurstöðurnar úr því eiga að vera til 20. des. Síðan fara skrifstofublækurnar hérna bara í jólafrí eða eitthvað og eru ekkert að hafa fyrir því að senda manni einkunnirnar fyrr en 15. jan. eins og áður sagði.
Já þetta toppar jafnvel HÍ í vitleysu.

Annars er það að frétta héðan að það eru tvö próf eftir, á morgun og hinn, en ég er núna í smá pásu frá lærdóminum, meðal annars til þess að skrifa þessa færslu en auk þess er ég að hlusta á fyrstu jólalögin mín í ár á netinu. Einhvernveginn er ég samt engan veginn að komast í jólafílinginn, kannski er það útaf því að lagavalið er ekkert sérlega skemmtilegt, en einnig þá líður mér bara engan veginn eins og það sé kominn miður desember - haustið er búið að þjóta hjá á ofsahraða og veðrið hérna segir mér að enn eigi að vera langt í jólin.

Jæja nóg af blaðri í bili, best að reyna að nýta tímann í eitthvað vitsamlegt.

miðvikudagur, desember 06, 2006

Merkisfólk frá Kansai Gaidai

Já það hefur margur merkilegur maðurinn gengið í Kansai Gaidai (skólinn minn hérna úti ef þið hafið gleymt því), og jafnvel útskrifast héðan, en það er alls ekki sjálfgefið samanber Halldór Laxness og MR.
Eitt gott dæmi um þetta er enginn annar en Nobuaki Kakuda, en ég komst að því fyrir tilviljun að hann er útskrifaður nemi héðan. Já það leynist ýmiss fróðleiksmolinn í sjónvarpsþættinum Hello! Morning, ég fann hvorki tangur né tetur um þetta á Google, hvort sem leitað var á ensku eða japönsku svo hver veit, kannski er þessi staðreynd að birtast í fyrsta sinn á netinu hérna á blogginu hjá mér, en ótrúlegari hlutir hafa varla gerst og ég get ekki neitað því að ég fyllist hálfgert af stolti út af því.

Töffarinn sjálfur (gaurinn til vinstri, ekki pappagaurinn)

Annars er það að frétta héðan að það er mikið af prófum í gangi, og hef ég það sem afsökun fyrir því að hafa ekki uppfært hérna í svolítinn tíma. Síðasta vika var stútfull af prófum - síðasta prófahrina fyrir lokaprófin, en þau hefjast svo núna á föstudaginn og lýkur á fimmtudaginn í næstu viku.
Þannig að þið skulið ekki búast við fregnum af neinum ævintýrum héðan í bili, en hver veit, kannski ég skjóta inn fleiri fróðleiksmolum álíka þessum hér að ofan ef ég þarf hvíld frá próflestrinum.