þriðjudagur, október 24, 2006

Próf og veikindi

Já það er liðið soldið síðan ég bloggaði hérna seinast, en það er út af því að það hefur verið lítið að gerast hérna, fyrir utan próf og veikindi. Í síðustu viku voru semsagt þrjú miðannarpróf, á miðvikudag, fimmtudag og föstudag og í þokkabót var ég veikur frá laugardagskvöldi og fram á föstudag. Þetta var nú sem betur fer engin alvarleg veiki, lá ekki rúmfastur eða neitt svoleiðis, en þetta var nóg til þess að draga allan mátt úr mér. Síðan eru í þessari viku tvö miðannarpróf í viðbót, heimtökupróf sem þarf að skila á fimmtudag og svo tímapróf á föstudag. Eftir það eru miðannarprófin sem betur fer búin, en þá er líka liðið nægilega langt á seinni part annarinnar svo að á þriðjudaginn eftir viku er próf úr næsta kafla í Reading&Writing kúrsinum. Yep yep yep, það er fun fun fun hérna. Þegar því lýkur þá róast aðeins um, helgin eftir það er þriggja daga og hver veit nema ég reyni ekki að gera eitthvað skemmtilegt þá.

Í öðrum fréttum er það helst að ég er á leið í heimsókn á Klakann yfir jóla og áramót. Já upphaflega planið var nú bara að chilla hérna úti, en jólafríið hérna er bara svo langt að ég nenni ekki að vera að þvælast um á hótelum allan þann tíma, og þar að auki er alveg heilmikið ódýrara að versla flugferðina hérna úti - já og svo langar mig auðvitað í matinn hennar mömmu :)
(eins og er þá er planið að lenda á Kebbló að kvöldi 18.des og brottför er svo eftir hádegi 5.jan)
Verst að núna þarf ég að fara að pæla í minjagripum og jólagjöfum fyrir liðið, ég hélt ég hefði þangað til í maí tli þess svo ég hef ekkert nennt að hugsa út í það. Jæja ég get nú alltaf bara keypt eitthvað fönkí japanskt sælgæti og hent því í fólkið, það fær bara að koma í ljós.

Jæja, ætli það sé ekki best að snúa sér aftur að lærdóminum, sjáumst síðar.

laugardagur, október 14, 2006

Bíóferð

Já í dag ákvað ég að kíkja í bíó enda kominn tími til, hafði ekki séð kvikmynd síðan ég kom til Japan.
Basically þá var þetta svona: Ég fékk frímiða á eina mynd og þar sem ég þurfti hvort eð er að fara til Osaka(arrrgh af hverju langar mig til þess að fallbeygja Osaka???) að sjá hana þá ákvað ég að nota tækifærið að kíkja ekki á eina heldur tvær myndir til viðbótar.
Hér fylgir smá umfjöllun um myndirnar:
  1. The Laws of Eternity. Anime (japönsk teiknimynd) sem ég fékk frímiða á í gegnum skólann gegn því að fylla út svona spurningagaur(questionaire) um myndina. En já, þessi mynd er algjör steypa og sýra og ég veit ekki hvað. Hún er um einhvern gaur sem sér Edison (já Thomas Alva) á einhverju sýrutrippi (gaurinn, ekki Edison) eða kannski var það vitrun eða hvað það kallast. Allavega þá segir Edison honum að smíða svokallaðan "Spirit Phone" til að hafa samband við framliðna og Edison á að hafa átt hugmynd að á sínum tíma. Jújú viti menn, gaurinn smíðar þennan síma og fer ásamt þremur vinum sínum í ferðalag í gegnum himnaríki og helvíti og allt þar á milli. Ég verð að viðurkenna að ég skildi ekki mikið meira í myndinni, kannski ekki undarlegt segið þið fyrst þetta var japönsk mynd en það var nú reyndar þannig að þetta var sérstök sýning með enskum texta. Og mér sýndist nú enski textinn vera að mestu leyti vel gerður svo ég kenni honum ekki um, ég held bara að sagan hafi verið algjör þvæla. Til gamans koma hér tvær spurningar af spurningablaðinu sem ég svaraði um myndina: "Do you believe that there is another world after life?" (einn svarmöguleikinn er "I have come to belive it after the movie"(já einhver hefur greinilega mikið álit á þessari mynd)) og "Did the movie give you a clue to be happy?" (Yes/No). Þannig að spurningablaðið var í raun skemmtilegra en myndin sjálf, nema kannski það að Guð er indjáni og heitir "God Eagle".
  2. Otoshimono (eða Óskilamunur á íslenska vísu). Japönsk hryllingsmynd sem ég ákvað að kíkja á því það voru tveir tímar í að næsta sýning á mynd nr 3 hæfist, svo hvað er betra en að kíkja á aðra mynd í millitíðinni? Myndin sjálf var nú svona í meðallagi fyrir japanskar hryllingsmyndir (sem þýðir að hún var margfalt betri en draslið sem Stebbi Þór horfir á, ég vil ekki einu sinni vita hvað hann glápti á í gær í tilefni Föstudagsins þrettánda), en ég bjóst svosem ekki við miklu; Erika Sawajiri(stúlkan uppi vinstra megin á myndinni) var sæt eins og alltaf enda var hún stór ástæða fyrir því að ég horfði á myndina.
  3. Sukeban Deka: Codename Asamiya Saki (þetta er bein þýðing af japanska titlinum, opinbera enska nafn myndarinnar er Yo-yo Girl Cop). Þetta er mynd sem ég hef hlakkað til að sjá núna í nokkurn tíma, bara ekki haft tækifæri eða gefið mér tíma til þess fyrr en núna, keypti reyndar "official photobook" myndarinnar fyrir mánuði eða svo til þess að létta biðina. Enski titill myndarinnar, eins asnalegur og hann er, er mjög lýsandi yfir myndina. Í henni er semsagt lögreglukona að berjast við illmenni með jójóum. Þetta er samt ekki nærri því eins asnalegt og það hljómar (eins og má sjá t.d. hér) og myndin var barasta bráðskemmtileg.
Svo má til gamans geta að ég skildi mun meira í myndum 2 og 3 heldur en 1, þrátt fyrir að 2 og 3 voru ekki með enskum texta. Auðvitað var það nú þannig að það var ekki beint flókið plot í þeim, hryllingsmynd og actionmynd, en það sýnir bara betur hvað mynd 1 var mikil þvæla.

Eftir þetta mikla verk, þrjár myndir á 7 tímum, þá kom ég við á færibanda-sushi-veitingastað (vona að allir viti hvað það er, fyrst þar sem þaðð er nú eitt af fáu úr japanskri menningu sem hefur náð til klakans) og verð ég nú bara að segja að ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum. Að vísu var enginn af réttunum 9 sem ég fékk mér (lax, rækjur, smokkfiskur, túnfiskur ,áll, krabbasalat, túnfiskssalat og eitthvað fleira) vondur, fyrir utan kannski smokkfiskinn sem var með svo miklu wasabi á að ég táraðist við að borða það, en ekkert af því var sérlega gott. Ekkert sem fékk mig til þess að verða að smakka það fljótlega aftur, best fannst mér túnfiskssalatið og krabbasalatið(sem var það eina sem ég fékk mér annan skammt af) en maður fær nú svipað túnfiskssalat útí búð heima.

Eftir að ég var búinn að bragða nóg af sushi þá skrapp ég í Yodobashi Camera (stóra raftækjaverslunin þar sem ég keypti m.a. myndavélina mína sem ég minntist á hér fyrir nokkru). Þar var ég svona hálfgert að svipast um eftir utanáliggjandi hörðum diski. Af hverju? Jú, ég komst að því núna í vikunni að ég get ekki brennt DVD diska á fartölvunni minni. Hún er með DVD skrifara en harði diskurinn í tölvunni er bara of hægur þannig að það misheppnast alltaf að brenna disk. Ég þurfi þá semsagt eitthvað annað til þess að gera öryggisafrit og hvað það nú er sem öll þessi gígabæti fara í og þarna í Yodobashi Camera kom ég auga á þetta, og það var ást við fyrstu sýn. Þetta er semsagt utanáliggjandi harður diskur, en í staðinn fyrir að vera í einhverju ljótu straumlínulaga gráu/svörtu/hvítu hylki þá er þetta eins og legokubbur í laginu og er minns rauður á lit =) Síðan er hægt að kaupa fleiri svona gaura og fara að kubba með þeim.
HVERSU SVALT ER ÞAÐ?!!??!
Alveg bara þónokkuð svalt sko.

Jæja best að fara að sofa eða læra fyrir miðannarprófin sem eru í næstu viku eða eitthvað.

P.S. Myndirnar úr Sake verksmiðjutúrnum koma vonandi einhverntímann á næstunni, næst þegar að mér leiðist og þarf break frá lærdómnum kannski.

P.P.S. Áhugasamir geta farið hingað og sótt Sukeban Deka myndina (með enskun texta, hún var komin á netið og búið að fansöbba hana áður en hún var frumsýnd hérna í Japan - en ég beið með það að horfa á hana því mig langaði til þess að sjá hana í kvikmyndahúsi).

þriðjudagur, október 10, 2006

Myndir

Hérna eru myndir af Suzuka brautinni, ásamt nokkrum hreyfimyndum. Þetta er bara úrval af bestu myndunum, en það verður að viðurkennast að þær eru svosem ekkert sérlega góðar. Síðan eru myndirnar eilítið smækkaðar af þessu myndaalbúmi og við það glatast gæði.
Myndir úr Sake verksmiðjutúrnum fara upp einhvern tímann á næstu dögum.

mánudagur, október 09, 2006

Rétta Formúlan

Jæja best að skrifa smá um formúluna. Eins og þeir sem fylgjast með henni vita þá sigraði Alonso hérna á Suzuka brautinni eftir að vélin sprakk hjá Schumi, og er jafnframt kominn með aðra hönd á meistaratitilinn, þó að hann neiti því nú sjálfur.

Hérna er smá listi yfir það í hvað ég eyddi helginni (laugardag og sunnudag):
Tími á brautinni: 9 klst
Um borð í lestum: 10 klst
Í strætó: 3 klst
Bið eftir strætó: 4 klst
Svefn: of lítill

Á laugardaginn þegar að tímatakan fór fram þá var ég kominn á brautina um 12, var síðan næsta klukkutímann að rölta um að skoða varninginn sem var í boði þarna og kíkja á Toyota, McLaren og Ferrari formúlubílana sem voru til sýnis þar. Um 1 leytið fór ég að huga að því að koma mér í stöðu fyrir tímatökuna sem hófst kl 2. Það var frekar stutt labb undir brautina að Dunlop beygjunni (kort af brautinni) þar sem ég fann mér ágætis sæti.

Kostir:
  • Gat setið
  • alveg upp við brautina
  • stutt labb
Gallar:
  • takmarkað útsýni
  • hraður kafli svo maður sá bara bílana þjóta framhjá
Þó að ég flokki hraða kaflann sem galla þá var það ekki alsæmt, því að ásamt því að maður sat alveg upp við brautina þá fékk maður hraðann alveg beint í æð og hávaðinn var alveg magnaður, fékk gæsahúð í hvert skipti sem bíll þaut framhjá.
Var svo nálægt brautinni að maður sá vel mennina sem keyrðu silfurlituðu Mercedes Benz öryggisbílana, fyrstur fór "ossan" eins og Japanirnir sem sátu fyrir aftan mig kölluðu hann, en það mætti þýðast sem "afi gamli" en sá ökuþór var einmitt vel silfurhærður. Næstur kom "gæ-djinn" eða "útlendingur", þ.e.a.s. hvítur maður. Það sem ég sé einna helst eftir er að hafa ekki náð myndum af þessum tveim ökuþórum, en myndavélin var ekki uppi þegar að þeir rúlluðu framhjá.
Svo hófst loksins tímatakan þar sem ekkert óvænt gerðist, Bridgestone rústaði henni og minn maður Kimi Räikönen gat ekki kúk frekar en fyrri daginn. Helsta spennan var hvort að það færi að rigna en undir lok tímatökunnar voru stór og dimm ský yfir brautinni, en það hélst þurrt.
Stuttu eftir tímatökuna þá hófst tímataka í Formula Integra, en það eru hálfgerðir fólksbílar og eftir formúluna þá líktust þeir einna helst Mözdunni okkar heima (já við fallbeygjum víst orðið Mazda líka) svo að ég nennti ekki að hanga þar lengi og hélt heim á leið.

Sunnudagur. Var aftur kominn á brautina um 12 leytið, kom stutt við í einni verslun og keypti mér minjagrip, lítinn blævæng sem á stendur Japanese Grand Prix - 20 Years - Suzuka Circuit. Það stendur á honum því þetta var einmitt í tuttugasta skipti sem kappaksturinn er haldinn á Suzuka brautinni, og jafnfram það síðasta, því að á næsta ári fer japanski kappaksturinn fram á Fuji Speedway.
Svo lagið ég af stað í áttina að áhorfendastæðunun, en í staðinn fyrir að fara aftur í Dunlop beygjuna þá lagði ég af stað í áttina að Skeiðarbeygjunni, en hún var einmitt eins langt í burtu og hugsast gat svo það tók smá stund að rölta þangað og mikil fólksþvaga á leiðinni. En ég komst loks á leiðarenda og tók mér stöðu þar sem ég sá vel þegar að bílarnir komu að Skeiðarbeygjunni og fóru inn í hana.

Kostir:
  • Gott útsýni
Gallar:
  • Langt labb
  • engin sæti, þurfti að standa allan tímann
  • frekar langt frá brautinni
Þannig að þetta var aðeins öðruvísi upplifun en á laugardaginn. Það var svosem ekki mikið mál að standa þarna í 2 klst, en eftir 30 mínútna labb að strætóröðinni og 2 klst bið í þeirri röð þá var ég nú orðinn frekar þreyttur.
Annars má geta þess að það gerðist lítið í sjálfum kappakstrinum, sprungin vél hjá Schumi og sprungið dekk hjá Massa var það helsta. Ég vissi ekki einu sinni af atvikinu hjá Massa fyrr en ég var kominn heim og las um það á netina því það eina sem maður hafði þarna á brautinni til að fylgjast með keppninni að öðru leyti en því sem maður sá var hátalarakerfi, með japönskun þul auðvitað, þannig að ef ég var nógu heppinn að heyra það sem hann sagði (maður heyrir ekkert í kerfina þegar að bílar eru að keyra framhjá) þá tók við vandamálið að skilja það sem hann sagði, en einhvernveginn vildi nú svo til að ég bæði heyrði og skildi það þegar að vélin hjá Schumi sprakk. Svo var líka smá spenna í startinu, sérstaklega þegar að Alonso var að taka fram úr Trulli en það þarf vel hugrakkan mann til þess, og óttaðist ég nú um Alonso þegar að það átti sér stað.
Fyrir utan þetta þá gerðist lítið sem ekkert í sjálfri Skeiðarbeygjunni, einhver plebbi sem ég man nú ekki einu sinni hver var sneri bílnum lítillega undir lokin en gat auðveldlega haldið áfram. Síðan var athyglisvert að sjá hvernig Barrichello át uppi Super Aguri bílana í byrjun eftir að hann hafði misst framvæng í byrjun og lent fyrir aftan þá, en Barrichello ekur einmitt á Honda bíl og Honda rekur einnig Super Aguri liðið.

Nokkrir molar:
  • Stuðningsmenn Ferrari voru fjölmennir þarna eins og alls staðar, en stuðningsmenn Super Aguri (langlélegasta liðið) voru ekki mikið færri, enda er það japanskt lið (í eigu Honda) og báðir ökumennirnir eru japanskir svo það er alveg skiljanlegt.
  • Mikið af kvenfólki var meðal áhorfenda, mun fleiri en á Nurburgring í fyrra, sem kom mér nokkuð á óvart í hinu annars karlremburíkjandi þjóðfélagi.
  • Mikið af ungu fólki á mínum aldri á meðal áhorfenda, og einnig foreldrar með unga krakka í för. Greinilegt að þetta er ein útfærsla á gamla góða sunnudagsbíltúrnum.
  • Áhorfendur voru um 160.000 talsins.
  • bæti við fleiri molum hérna þegar þeir rifjast upp fyrir mér...

Svo smellti ég af alveg slatta af myndum, flestar alveg hörmulegar, en vonandi eru einhverjar ágætar, ég skelli þeim upp hérna svona þegar ég nenni.


Í öðrum fréttum: 1 dead, 1 injured after festival float crashes into house
Þetta gerðist þar sem Okamoto fjölskyldan býr, þau buðu mér þangað og ég hefði líklega verið þarna ef að það hefði ekki verið fyrir formúluna. Svona er þetta.

En já, nóg í bili, ég bæti við myndum bráðlega, og fleiri fréttum þegar þær rifjast upp fyrir mér.

P.S. Breytti úr "align left" í "justify full", hvað sem það heitir nú á íslensku, til þess að sé vonandi auðveldara að lesa þetta. Blogger kvartar þá reyndar yfir einhverjun html error, en ég sé ekkert að þessu í Firefox svo ég læt reyna á þetta. Tjáið ykkur um þetta ef það er þörf á því.

þriðjudagur, október 03, 2006

Póstur

Já í gær kom póstur til mín, það var miði á japönskuna formúluna á Suzuka brautinni um næstu helgi. Ég er semsagt að fara að horfa á Schumi og Alonso kljást um titilinn, og ekki minnkaði spennan eftir atburði helgarinnar. Svona á þetta að vera.
Annars verður að segjast að maður er eiginlega hálf knúinn til þess að halda með Schumi, því auðvitað vill maður fá fínt verður þegar maður fer á svona viðburði, og málið er bara að nema að það verði úrhelli að þá á greyið Alonso ekki mikinn séns. Svona er þetta.

Annars er svolítið síðan ég skrifaði hér seinast, en ástæðan fyrir þessu hléi er bara sú að það hefur verið lítið að gerast, ég hef bara verið að taka því rólega og einbeita mér að náminu. T.d. var ég í prófi #2 í þeirri prófaröð sem ég hef talað um hérna áður (og gekk vel). Síðan vill svo skemmtilega til að að á fimmtudaginn eru tvö orðaforðapróf hjá mér, eitt próf per japönskukúrs.

Síðan er ég að reyna að byrja að plana vetrarfríið aðeins, ég verð heimilislaus í um 4 vikur þannig að ég verð eitthvað á flakki allavega þann tíma, get að vísu verið 2 vikur í viðbót en það ræðst líklega af peningastöðunni. Stóra spurningin núna er bara hvort ég eigi að nenna að kíkja yfir til Suður-Kóreu í viku eða svo, ég þarf að pæla betur í því þegar ég hef tíma.

Jæja ég læt heyra í mér aftur eftir helgi með fréttir og vonandi myndir af formúlunni, annars er ég ekki búinn að vera duglegur að smella af myndum, tók að vísu nokkrar í Sake verksmiðjutúrnum, svo að ef að einhver getur mælt með góður online mynaalbúmi til að skella þeim upp á þá væri það vel þegið.

Bless í bili.