fimmtudagur, ágúst 31, 2006

Ég er númer 9!

Ætli ég þurfi ekki aðeins að útskýra. Það eru 444 skiptinemar hérna í Asian Studies Prógramminu, og skráning í kúrsa fer þannig fram að það er lotterí þar sem allir draga sér númer sem er á bilinu 1-444, og sá sem dregur 1 fær að velja kúrsa fyrst, og svo koll af kolli. En svo er það þannig að í flesta kúrsana komast bara 30 manns, svo þegar að kemur að hærri tölum er allt eins líklegt að kúrsarnir sem það vill taka séu fullir, og er það fólk þá bara shit out of luck og verður að taka einhverja leiðinlega kúrsa.
En já, ég var semsagt frekar heppinn og dró númerið 9, svo ég fæ þá kúrsa sem mig langar í: Struggle for Justice og The Body and Communication (skrifa kannski meira um þá þegar þeir eru byrjaðir).
Svo má til gamans geta að gaurinn sem dró 444 gekk um með miðann festan á ennið á sér það sem eftir var dagsins, þannig að núna er hann þekktur um allan skólann, svo það þarf kannski ekki að vera alslæmt. Örugglega verra að vera 443, álíka slæm aðstaða og 444 en engin frægð :)

miðvikudagur, ágúst 30, 2006

Góðan daginn góðir hálsar

Já nú er nýr dagur að skella á hér í Japan, en ég ætla rétt aðeins að minnast á það sem gerðist í gær. Ég keypti mér nefninlega hjól. Það var það stærsta sem ég fann en samt heldur lítið fyrir mig en það er þó allavega skárra en ekki neitt. Gamla konan sem seldi mér hjólið var merkileg, hún var ein af þeim þar sem bakið myndir 90°horn m.v. lappirnar, eftir að hafa verið að bugra við hjól í örugglega fleiri áratugi. Svo var alveg frábært að byrja að hjóla og finna smá golu leika um mig, það er nefninlega ennþá heitt hérna ef þið hafið gleymt því :) Að vísu er "bara" spáð 25°í dag, öfugt við 32°sem voru í gær, en áralöng búseta mín á Íslandi hefur nú kennt mér það að treysta aldrei veðurspám, svo það fær bara að koma í ljós.
En núna þarf ég að fara að koma mér í skólann, núna fer nefninlega allt að byrja af alvöru með einhverjum fundum og svona, kennslan hefst svo á mánudag/þriðjudag.

P.S. Já ég hafði smá tíma til að glápa á sjónvarpið í gær og sá þá hálfan þátt af Dance Drill og heilan af Kekkon dekinai otoko (maðurinn sem getur ekki kvænst) og það er alveg allt annar wibe að horfa á þetta í alvöru japönsku sjónvarpi heldur en að sækja þetta af netinu. Lítur allt einhvernveginn öðruvísi út, og betur :)

mánudagur, ágúst 28, 2006

Ennþá heitt

Já í dag var ennþá heitt. Annars er kominn tími á að ég lýsi aðstöðunni aðeins hérna. Sjálfur bý ég í Seminar House 4, Seminar House 1, 2 og 3 eru skammt frá og svo er um 20min labb í skólann - svo að markmið morgundagsins er að útvega mér einhvern notaðan hjólreiðagarm. Eins og er sit ég í tölvuverinu sem er bara mjög fínt og flott og vel loftkælt, síðan fæ ég loksins netaðgang í herberginu mínu á morgun svo þá get ég bara notað lappann - þar er líka fín loftkæling :)
Annars var ég bara rétt í þessu að koma hingað eftir að hafa verið úti í allan dag. Fyrst var smá túr um kampusinn svona til að benda manni á það helsta markverða. Svo var komið að hádegismat þar sem ég fór með nokkrum Könum (það eru ekkert nema Kanar hérna) á Cafeteria 1 og fékk þar alveg æðislega gott Curry Rice fyrir 220 jen, þannig að jafnvel þó ég finni ekkert annað sem mér þykir gott að éta hérna þá get ég auðveldlega borðað mig saddan á Curry Rice á hverjum degi :)
Svo tók við banking session þar sem veitt var aðstoð við að opna bankareikning hérna í Japan og að því loknu hitti ég Jessicu (ein af Könunum) og speaking partnerinn hennar (japanskur nema í enskunámi hér við Kansai Gaidai sem skólinn kemur manni í kynni við. Sjálfur á ég eftir að hitta speaking partnerinn minn, verður vonandi af því seinna í vikunni.
Svo um 6 leytið þá héldum við heim á leið, en komum fyrst við á einhverjum veitingastað sem Jessicu langaði til en prufa og fékk ég mér eitthvað funky afbrigði af nautahakki og spaghettí sem var alveg glettilega gott, en því miður svolítið dýrt svo það verður ekki komið við oft þar.
Og núna sit ég hér og skrifa þetta og ætli ég heilsi ekki upp á krakkana í loungeinu hérna í smástund áður en ég fer snemma í háttinn.

P.S. Já einhvernveginn gleymdi ég að gera aðstöðinni hérna góð skil, það fær bara að bíða betri tíma.

sunnudagur, ágúst 27, 2006

Heitt, heitt, heitt

Já eins og titllinn gefur til kynna þá er heitt hérna. Mjög heitt. Að vísu er mér frekar svalt núna af því að það er alveg mega loftkæling hérna í tölvuverinu, og ég er ennþá hálf rakur eftir að hafa lent í skúr núna áðan þegar ég var að rölta út í búð. Verslaði samt ekkert mikið, fæ ekki aðgang að ískáp eða eldunaraðstöðu fyrr en í næstu viku, bara vatnshitara fyrir cup noodles. Svo er McDonald's á kampusnum :) Beat that HÍ!

En já ég er semsagt kominn á leiðarenda og líst bara mjög vel á aðstöðuna hérna á heimavistinni, en á reyndar eftir að hitta herbergisfélaga minn sem kemur á morgun eða hinn.

Annars langaði mig að bæta aðeins við ferðasöguna. Ég var nefninlega ekki einn á Leifsstöð nei ó nei. Fyrst hitti ég Martin Inga (man ekki hvers son, megið skella því í comments ef þið vitið), fyrrverandi Inspector Plaetarum eða hvað það nú heitir og dúx árgangsins míns í MR. Hann var að koma frá Baltimore þar sem hann hafði víst verið að vinna í einhverju rannsóknarverkefni jájájá, ég held að hér sé komið efni í næsta Kára Stefáns barasta.
Og ekki bara það heldur sá maður celebrity þar líka! Engan annan en Guðna Bergs, einn besta íslenska knattspyrnumann síðari tíma.

Jæja bless í bili.

laugardagur, ágúst 26, 2006

Ferðalagið senn á enda...

Jæja núna er ferðalagið senn á enda, en ævintýrið er rétt að byrja.
Er núna staddur á hótelhergi rétt hjá Kansai International Airport, og á morgun er bara stutt rútuferð til Hirakata.
Ég er nú mjög þreyttur enda búinn að vera uppi í um 30 klst svo ég ætla ekki að hafa þetta langt að sinni, bara að minnast á að ferðin Köben-Bangkok-Kansai gekk bara mjög vel, eyddi mestum tímanum í að lesa Madame Terror og gæða mér á kræsingunum sem Thai Air bauð upp á. Fjögurra rétta máltið takk fyrir, í báðum flugunum, og þá tel ég ekki með hina sívinsælu brauðbollu með smjöri eða smákexið með stóra Camenbert oststykkinu með.
En já, núna tekur svefninn við, gn :)

P.S. Thair Air sýndu bara einhverjar lélegar myndir: Mission Impossible 3, Inside Man, RV og einhverja eina enn sem ég kann ekki og vil ekki nefna. Inside Man er nú reyndar ágæt en ég nennti bara ekki að horfa á hana aftur :P

föstudagur, ágúst 25, 2006

Í kóngsins Köbenhavn (nenni ekki að finna danska ö-ið)

Jæja þá er maður barasta staddur í kóngsins Köbenhavn eða rétt þar hjá, á Kastrup flugvelli, og er að bíða eftir fluginu sem fer eftir rúman einn og hálfan tíma.
Hingað til hefur ferðin gengið vel, flaug út í gær og gisti eina nótt hjá bróður mínum og fjölskyldu hans í Lundi. Svo núna áðan þegar ég var að taka lestina...

---
núna var að kalla upp Iceland Express flug til Rvk, nei ég er ekki að fara með því :P
---

...þá var hún alveg stöppuð, öll sætin upptekin þegar ég fór um borð í Lundi, en svo kom alveg endalaust af fólki um borð í Malmö og þá var sko þröngt á þingi. En ég leit bara á það sem upphitun fyrir almenningssamgöngurnar í Japan svo það var fínt :)

Svo var komið að því að checka in hérna og ég var soldið stressaður útaf því að ég er með smávegis af yfirvigt. Svo sá ég gaur á undan mér í röðinni sem var einmitt með STA miða eins og ég, og hann var í alveg svaðalegu veseni einhverju útaf og miklum þunga og/eða of mörgum bögglum eða einhverju, ég heyrði nú ekki orðaskil. En svo þegar röðin var loksins komin að mér þá lenti ég á alveg rosalega huggulegri eldri dömu sem gerði enga athugasemd við þungan á ferðatöskunni minni og var ekkert að spá í handfarangurinn minn, sem ég sá að aðrir sem voru að checka in voru með eitthvað vesen yfir. Ég dauðsá eftir því að hafa sett svo mikð af bókum í handfaranguinn, hún hefði örugglega ekkert sagt ef það hefði allt verið í ferðatöskunni, en núna verð ég að dröslast með þessa níðþungu skólatösku næstu 24 tímana eða svo :/ Svo checkaði hún töskuna sjálfkrafa áfram til Kansai International Airport og ég fékk flugmiðan fyrir þann legg líka svo ég þarf ekki að gera neitt í þennan sex og hálfa tíma sem ég verð að bíða á Bangkok flugvelli, bara mæta um borð í flugvélina. Jonni bróðir stakk upp á því að ég fengi mér bara svona svefnbás ef hann væri til staðar þar og leggði mig. Við sjáum til með hversu þreyttur ég verð þá.
En ef ég verð ekki sofandi allan tíman þar þá reyni ég kannski að komast á netið þar og uppfæra ferðasgögna, og segja ykkur hvernig Madame Terror bókin er sem Jonni gaf mér í skiptum fyrir vískíflösku sem ég keypti fyrir hann í Leifstöð :)

P.S. Hvaða mynd ætli Thair Air bjóði uppá í fluginu? Ég myndi nú ekki fúlsa við einni tælenskri, t.d. hinni stórgóðu Tom Yum Goong sem ég ætlaði alltaf að kíkja á í annað sinn. En það gleymdist og verður að bíða þar til ég kem heim á klakan, nema ég verði heppinn í fluginu :)

föstudagur, ágúst 04, 2006

Fyrstu skrefin...

Jæja þá er maður bara byrjaður að blogga. Eins og kannski sumir vita þá hef ég mikið á móti bloggi en hef ákveðið að sættast við það tímabundið á meðan ég er úti í Japan til þess eins að ég þurfi ekki að vera að sömu fréttirnar af mér við tíu mismunandi einstaklinga...ég segi fólkinu bara að drullast til þess að lesa bloggið.
En já, 3 vikur í brottför og ennþá alltof marg ógert...sjáumst í Japan :)