laugardagur, janúar 27, 2007

Sapporo - aftur

Já við erum víst ennþá stödd í Sapporo, gleymdi að minnast á einn hlut.
Það er kalt í Sapporo á veturna. Alveg vel niður fyrir frostmark, t.d. er hitinn (kuldinn) núna á hádegi þar -7°, og ætli það hafi ekki verið eitthvað svipað þann tíma sem ég var þar.
Nú þrátt fyrir það eru Sapporobúar ekkert alltof mikið fyrir það að klæða sig í þykk vetrarföt svona eins og við Íslendingar gerum. Sérstaklega er þó eftirtektarvert hversu fáir notast við húfu eða álíka skjólklæðnað fyrir höfuð og eyru. Liggur við að það megi spotta útlendingana þar á því að það eru þeir sem eru mest með húfur (ég sjálfur innifalinn í því).
Reyndar hitti ég tvo útlendinga á fjölförnu götuhorni í miðbæ Sapporo sem voru ekki með húfur, en þeir höfðu annað til að halda á sér hita: brennheita trú sína. Þetta voru semsagt mormónar, Mitchell frá USA og Dervin frá Nýja-Sjálandi, svona á mínum aldri, mættir til Sapporo til að boða hina einu sönnu trú eða eitthvað svoleiðis. "Do you know there is a god that loves you?" var t.d. pikk-öpp línan þeirra. Ég spjallaði við þá í smástund en get róað ykkur (eða valdið ykkur vonbrigðum?) því að ég frelsaðist ekki af þessu spjalli okkar þó að ég hafi haft gaman af því, oft gaman að hlusta á fólk blaðra um hluti sem það hefur svona mikinn áhuga fyrir.

Jæja ætli ég segi ekki umfjölluninni um Sapporo lokið með þessu, næst kemur eitthvað annað, kannski jafnvel myndir sem ég lofaði í október á síðasta ári...but don't hold your breath.

föstudagur, janúar 26, 2007

Sapporo

Já í síðustu viku þá var ég í Sapporo, og var það alveg fínasta dvöl. Fékk líka smá vetur á meðan ég var þar, eftir að ég var svikinn um vetur þegar ég kom heim um jólin, og ekki er þetta mikill vetur hérna í Kansai Gaidai þar sem hitinn er um 10° og glampandi sólskin..
Í Sapporo var semsagt kuldi og snjór, og þar tók ég því bara rólega eftir allt stressið í Tokyo, rölti um svæðið og borðaði góðan mat. Lambakjötið þar (mest ef ekki allt flutt inn frá Ástralíu) og varla borðað öðruvísi en sem Genghis Khan:
In Hokkaido, barbecuing mutton is known as "Genghis Khan."
Genghis Khan (1162?-1227), was a Mongolian conqueror who united the regional tribes and who was named so in 1206, meaning supreme conqueror. The origin of this name's association with grilling mutton is said to come from the fact that the shape of the grilling plate used for barbecue resemble the dome-like helmets of those worn by Genghis Khan and his men. It is quite possible that there are many other interpretations for the origin of this cuisine's name as Genghis Khan. This may merely be just one of them.

jafnast engan veginn á við íslenska lambið, en heit skál af ramen í kuldanum þarna er hvergi betra.
Nú þar sem ég var á Hokkaido þá varð ég að baða mig í hver, en það gerði ég í dagsferð til Jouzankei, en það er pinkulítil hola sem var troðið í fjallshlíðar í dal á milli tveggja fjalla og er algjör bananabær - ef það væru ekki hverir þar þá væri enginn þar.
Síðan var komið að brottför, en ég stansaði alveg heillengi í minjagripabúð að velta því fyrir mér hvort ég ætti að eyða 1000 yenum í niðursoðið bjarnarkjöt, bara svona til að stæla Azumanga Daioh, en ákvað að lokum að sleppa því - peningunum betur varið í annað.
Á mánudaginn sneri ég semsagt aftur hingað til Kansai Gaidai, en meira um það síðar þar sem þessi færsla ber nú titilinn Sapporo...

mánudagur, janúar 15, 2007

Tokyo

Jæja, við skulum bara halda áfram þaðan sem síðast var horfið.
Sunnudagur og mánudagur, 7. og 8.jan: Nú síðasta flugið mitt gekk vel og ég var kominn á hótelið um miðnætti...en ég gat engan veginn sofnað þó að ég hafi verið á fótum í rúmar 30 klst. Ég hneig loksins útaf örmagna um kl 10 á mánudagsmorguninn og vaknaði síðan kl 11 um kvöldið - vel farið með fyrsta daginn í Tokyo ha.
Þriðjudagur: Fyrsti dagurinn minn í Tokyo sem eitthvað varð úr og nýtti ég hann til að kíkja til Akihabara, mekka nördanna. Ég er nú svo nískur að það fór svo að ég verzlaði ekkert þar, en það var alveg magnað að kíkja þangað og sjá allt draslið sem var selt þar, helmingurinn af því hafði ég ekki einu sinni hugmynd um að væri til.
Miðvikudagur: Vaknaði með ekkert ákveðið plan í gangi, og fór svo að ég ákvað að skella mér á sumo mót, en eitt af stórmótum ársins en einmitt í gangi þessa dagana. Ég hef svosem ekki mikið um það að segja annað en að sumo rokkar, alveg mangað að sjá þetta í eigin persónu, stemmingin fín og svo var meira að segja boðið uppá chanko í hádegismat.
Fimmtudagur: Þá skrapp ég til Yokohama (ef Tokyo væri Reykjavík þá væri Yokohama Hafnarfjörður), heldur ómerkilegur bær og Kínahverfið þeirra, sem á víst að heita frægt, en handónýtt m.v. Kínahverfið í Kobe.
Föstudagur: Hoppaði yfir til Odaiba, kíkti þar á sjóminjasafn, fjöldin allur af flottum módelum af skipum frá hinum ýmsu tímum var hápunktur þess, m.a. 5 metra langt módel af Yamato no less, og þó var það í skalanum 1/50. Leit líka við í Framtíðarsafninu (eða The National Museum of Emerging Science and Innovation), alveg endalausan fróðleik þar að finna og hafði ég gaman af, þó að ég hefði nú skemmt mér betur held ég ef ég hefði verið svona 10 árum yngri.
Laugardagur: Byrjaði daginn í Shibuya, leiðinapleis, ekkert nema verzlanir og engin þeirra sem jafnast á við verslanirnar í Akihabara...nema kannski ein: Hello! Project Official Shop (and petit museum), þar sem ég eyddi alveg bara alltof mörgum yenum. Frá Shibuya fór ég til Harajuku, annað leiðindapleis (að vísu Hello! Project verslun þar líka, en alveg sama vöruúrval þar og í Shibuya, og ekkert petit museum svo ég eyddi ekki tímanum í það). Þar elti ég mannflauminn að Meiji jingu, þar sem fólkið var að fara í nýársheimsókn eins og títt er í Japan - betra seint en aldrei. Síðan var bara allt í einu mætti heil brúðarfylgd inn í mitt skrínið, en ég vil ekki einu sinni hugsa til þess hvað svoleiðis kostar.
Ennþá laugardagur, kvöld: fór til Shinjuku, og leit þar við í Kabukicho, rauða hverfinu þeirra, en það var ekkert sérlega rautt, mest frekar köflótt einhvernveginn, og þó að ég hafi nú hlakka til þess að koma þangað, eftir að hafa séð það svo margoft í myndum Takashi Miike, þá verð ég nú bara að segja að ég hafi orðið fyrir vonbrigðum.
Sunnudagur: Kíkti aftur til Shinjuku, í þetta sinn á flóamarkað í Hanazono jinja. Mestallur varningurinn þar var drasl, minnti helst á bílskúrssölu, en þó tókst mér að finna stafla af gömlum japönskum kvikmyndaplakötum (frá um 6. og 7. áratugnum) og skemmti ég mér við að róta í gegnum þau þó ég hafi nú ekki keypt neitt, verðið var fullhátt, sérstaklega m.v. að ég geri aldrei neitt með plaköt, Diablo 2 plakatið sem ég keypti fyrir ég veit ekki hvað mörgum árum liggur ennþá uppí hillu í upphaflega plastinu að safna ryki...
Frá Shinjuku rölti ég til Yasukuni jinja, sem var svosem ekki mikið meira en hvert annað skrín fyrir mér, nema hvað að þar er líka stríðsminjasafn sem er alveg helvíti töff, m.a. er þar að sjá tvær flugvélar, skriðdreka, og eins manns sjálfsmorðskafbát, allt úr síðari heimsstyrjöldinni og allt meira eða minna original.
Ég þurfti svo að drífa mig heim á hótel því að Hello! Morning var að fara að byrja, en ég vildi ekki missa af eina tækifærinu sem ég hafði til að sjá hann "live". Þátturinn sjálfur var samansafn af best-of brotum úr þáttum frá 2006, og ekkert sérlega góðum best-of brotum heldur, svo hann olli svolitlum vonbrigðum.
Að lokum leit ég aftur til Akihabara, en það er aðeins öðruvísi þar um helgar, búið að breyta 6 akreina götunni í göngugöntu og alveg stappað af fólki, og mátti þar meðal annars sjá gaur í Razor Ramon HG búningi, og líka einhverjar Morning Musume-audition rejects vera að reyna að gera career úr því að syngja þarna á miðri götunni - og sjá þær taka sprettinn þegar að löggan nálgaðist.
Mánudagur (í dag, afskaplega líður tíminn hratt): Gerði svosem ekki mikið annað en að fljúga til Hokkaido. Hitti reyndar skemmtilegan kall á flugvellinum í Tokyo sem ég spjallaði við alveg heillengi. Hann var líka á leiðinni til Hokkaido, og lofaði hann mér því að bjóða mér upp á ramen og bjór ef ég myndi leita hann uppi í Chitose (ef Sapporo(aðalborgin hér í Hokkaido þar sem ég er einmitt núna) er Reykjavík þá er Chitose Keflavík - flugvallarbærinn), ásamt því sem hann virtist alveg handviss um að ég myndi finna mér kærustu hérna á Hokkaido...

Úff jæja þá er ferðasagan hingað til orðin klár, allavega svona í stórum dráttum. Ég bæti síðan við því sem gerist hérna í Hokkaido síðar en ég efast um að það verði mikið, Sapporo er mun rólegri borg en Tokyo og tempóið ekki jafn hátt sem er bara mjög fínt, skrapp í kvöldverðargöngu núna áðan og líst bara mjög vel á pleisið og ætla ég bara að taka því rólega og borða góðan mat, en Hokkaido er einmitt frægt fyrir góðan mat.

Að lokum vil ég benda á það fyrir fólk sem hefur áhyggjur af einhverjum jarðskjálftum og einhverjum flóðbylgjum sem þeir kunna að valda að Sapporo er ágætlega inni í landi, svo það þarf ekki að hafa áhyggjur af mér að því leytinu til...

sunnudagur, janúar 07, 2007

Á ferð og flugi...mest á flugi

Jæja þá er maður loksins kominn til Japan, en það var ekki auðvelt það get ég sagt ykkur.
Ferðalagið hófst á föstudagseftirmiðdag með flugi til London, en það var bara létt upphitun fyrir það sem fylgdi. Þar gisti ég eina nótt og á laugardagsmorgun þá lagði ég af stað til Japan, með stoppi í Doha.
Eða það hélt ég.
En viti menn, þegar ég kem á Gatwick flugvöll þá er mér tilkynnt að vélinni þaðan til Doha seinki um 4klst. Sem þýddi það að ég missti af fluginu frá Doha til Japan. Qatar Airlines staffið í London hófst þá handa við að bjarga þessu einhvern veginn, og lausnin var að frá Doha færi ég til Hong Kong og þaðan til Kansai flugvallar í Japan.
Vandræðin voru samt sem ekki búin, því að þetta þýddi að ég kæmi til Japan um 4klst síðar en upphaflega planið gerði ráð fyrir - sem þýddi að ég missti af fluginu mínu frá Kansai til Tokyo. Nú ég nýtti tímann sem ég þurfti að bíða í London í að panta nýtt flug frá Kansai til Tokyo, sem betur fer voru alveg heil tvö sæti laus á næsta flugi á eftir fluginu sem ég missti af laus og skellti ég mér á það fyrir lítil 22 þúsund jen, reiðubúinn að senda Qatar Airlines reikninginn...
Nú síðan var haldið af stað, fyrst til Doha, en sú vél flaug eitthvað hægt og því var enn meiri seinkun á komunni til Doha, sem þýddi að það var aðeins um klukkustund í að flugið áleiðis til Hong Kong færi. Ég hafði ekki miklar áhyggjur af sjálfum mér, Doha flugvöllur er lítill og ég þegar með boarding pass svo ég fór bara beint uppí vélina en ég hafði miklar áhyggjur af farangrinum, átti ekki von á því að gimpin þarna í Doha kæmu töskunni minni í rétta vél í tæka tíð...
Nú vélin til Hong Kong var líka eitthvað gömul eða eitthvað og flaug hægt svo að í staðinn fyrir 2klst stopp í HK þá var það komið niður í annað 1klst stopp...og enn meiri áhyggjur af farangrinum.
En já, núna eftir ég veit ekki hversu margra tíma flug þá er ég loksins kominn til Japan, og mér til mikillar undrunar og gleði þá var taskan mín mætt líka.
Hérna á Kansai flugvelli ræddi ég svo við eina sæta stúlku hjá ANA (flugfélagið sem ég flýg til Tokyo með) og hún endurgreiddi mér miðann bara á staðnum - þjónusta í lagi! og ég slepp við að þurfa að díla við vanvitana hjá Qatar Airways.
Nú eftir 20min eða svo leggur vélin af stað til Tokyo, það tekur rúma klukkustund og við komuna í Tokyo tekur við önnur eins lestarferð.
En allt í allt þá er ég bara um 2klst á eftir upphaflegri áætlun, en í sárabætur fékk ég að kíkja örstutt til Hong Kong og auk þess 8 sterlingspunda máltið á Gatwick sem Qatar Airways bauð uppá meðan fólk var að bíða (bagetturnar hjá Upper Crust rokka feitt).
Núna þarf ég hins vegar að fara að koma mér - ég kem með lokin á ferðasögunni svona þegar ég kemst næst á netið...og einnig nýarárskveðjur og eitthvað sem ég man ekki hvað er.