fimmtudagur, nóvember 23, 2006

Þakkargjörðarhátið

Ég vona að ég hafi munað íslenska heitið á þessari merkilegu hátið rétt, en það kemur líklega frá Könunum. Hér í Japan er eitthvað svipað uppi á teningnum, eða frídagur sem nefnist "Labor Thanksgiving Day" á enska vísu. Já það var semsagt frí í dag og tækifærið var vel notað til þess að sofa til hádegis og slappa af.
Um síðustu helgi þá skrapp ég loksins í sædýrasafnið í Osaka og var það mjög athyglisvert og eitthvað annað en selirnir í Húsdýragarðinum. Því miður missti ég af sveinka (ef þetta væri einn af íslensku jólasveinunum hvað ætli hann héti? Fiskfúll kannski? Endilega skiljið eftir skilaboð um skoðun ykkar á þessu) en það var nú sem betur fer nóg af öðrum furðuskepnum að virða fyrir sér.
En núna er gamanið búið, próf svo langt sem augað eygir - en augað eygir um 3 vikur fram í tímann virðist vera - eða nokkurn veginn þangað til ég legg af stað heim á leið 17. des. en fyrir þá sem vilja skipa móttökunefndina á Leifstöð þá lendir vélin kl 23:55 þann 18. des.
Jæja meira var það ekki í bili, en það er aldrei að vita nema ég skjóti inn einhverjum molum hingað á næstunni, sjáum til með það.

þriðjudagur, nóvember 14, 2006

Tónleikar...og kannski fleira ef ég nenni

Já ég ákvað að skella mér á tónleika á sunnudaginn, nei það var ekki Iron Maiden þó að þeir séu víst á leiðinni hingað núna um þetta leyti. Nýja platan þeirra höfðar bara ekkert sérstaklega til mín og síðan er ég ekki enn búinn að jafna mig eftir floppið þeirra á Klakanum.
Nei ég fór á tónleika með Morning Musume, en í verulega stuttu og einfölduðu máli eru þær japanska útgáfan af Spice Girls.
Nú tónleikarnir sjálfir voru ekkert sérlega skemmtilegir, en þetta var engu að síður athyglisverð lífsreynsla og sérlega áhugavert var að sjá og fylgjast með öðrum áhorfendum. Fyrir tónleikana hefði ég líklega sagst vera fan, en eftir að hafa kynnst raunverulegum fans þá finnst mér ég ekki vera verðugur þess að kalla mig það. Sem dæmi má nefna granna minn sem dansaði og djöflaðist allan tímann, sveiflandi glowsticks og var ekki langt frá því að impale-a mig oftar en einu sinni og oftar en tvisvar með þeim. Síðan ekki langt frá var svo hópur af gaurum sem voru greinilega hardcore fans og voru búnir að choreographa nokkur dance moves sem þeir voru að hamast á heilu tvo tímana sem tónleikarnir voru í gangi. Ég treysti mér ekki til þess að lýsa þessum dansi í orðum, og ef ég reyndi að sýna ykkur það þá er ég hræddur um að ég myndi enda örkumla, en segja má að dansinn hafi einna helst líkst break-dansi.
Þetta gerðist semsagt allt nálægt mér í áhorfendaskaranum, á aftasta bekk, og af því sem ég sá þá var ekki minni ærslagangur nær sviðinu. Sem betur fer var enginn mosh-pittur, það voru númeruð sæti fyrir alla, en ef svo hefði ekki verið efast ég ekki um að einhverjir hefðu troðist undir.
Eins og venja er á tónleikum þá var hægt að versla ýmsan varning þarna tengdan grúppunni, annað hvort official varning inni í tónleikahöllinni eða aðeins minna official (jafnvel bara núll official) varning af gaurum sem voru búnir að setja upp booths fyrir utan pleisið. Nú í stuttu máli sagt þá er ég feginn því að ég komst ekki í hraðbanka fyrir tónleikana því það hefði allt týnst þarna, en í lokin var ég farinn að telja krónurnar eða jenin öllu heldur því ég vildi nú ekki verða strandaglópur í miðborg Osaka með ekki eyri á mér - en maður hefði nú haldið að það væri hægt að notast við VISA í hraðbanka í 3ðju stærstu borg Japan.
Sem betur fer hafði mér talist rétt til og hafði efni á að koma mér heim, en það fyrsta sem ég gerði eftir heimkomu var að skella Rammstein á fóninn og hækka verulega í græjunum - eftir svona hrikalega poppaða tónleika þá þurfti þykka rokkblóðið í mér á mótefni að halda.

Jæja ég nenni ekki að skrifa meira í bili svo þið verðið bara að bíða þolinmóð eftir fréttum af næsta ævintýri héðan.

þriðjudagur, nóvember 07, 2006

Fegurðarsamkeppni og fleira

Eins og ég minntist á í síðustu færslu, eða mig minnir allavega að ég hafi gert það, þá var hátíð í skólanum um helgina. Hátíðin skiptist í tvo hluta: annars vegar voru japönsku nemendurnir með hátið sem basically samanstóð af matarbásum, svona hálfgert eins og er á 17. júní þarna heima - nema hvað að það var boðið upp á meira en pulsur þarna - en auk þess voru líka ýmis skemmtiatriði. Hins vegar var svo alþjóðleg hátið sem skiptinemarnir hérna áttu hönd í, t.d. voru settir upp básar til að kynna ýmis lönd, Ísland var meira að segja þeirra á meðal en sem betur fer hafði ekki tekist að gabba mig í að taka þátt í því. Síðan voru sýndir dansar frá ýmsum heimshornum og stuttar örkennslur í nokkrum tungumálum og tískusýning og eitthvað fleira.
Alþjóðlega hátíðin fannst mér ekkert sérlega spennandi svo ég hélt mig bara frá henni en matarbásar japönsku nemendanna voru snilld og borðaði ég mikið og gott þarna en það sem var eftirminnilegast var tempura ice, en þar er semsagt búið að troða ís inn í bollu, veit nú ekki hvort þannig bolla hefur sérstakt heiti á íslensku en hún er ekki ólík bollunum sem við borðum á bolludaginn. Síðan er þetta allt saman djúpsteikt, bara í stutta í stund svo að bollan verður greasy og heit en ísinn bráðnar ekki. Þetta er semsagt alveg lummugott og nú veit ég svosem ekki hvort það sé hægt að fá þetta á Klakanum, en ef ykkur gefst tækifæri til þess að prufa þetta þá ekki hika.

Nú ég fór semsagt á hátiðina á laugardaginn, át mig pakksaddan, og síðan þegar var farið að skyggja - um 5, 6 leytið - þá rákumst við á fegurðarsamkeppni sem var í gangi í amphitheatrinu (ljótt orð sem verður enn ljótara við íslenska fallbeygingu) held ég að það sé kallað. Nú við skelltum okkur í áhorfendahópinn og stuttu síðar þá hófst keppni á milli áhorfendanna, en sigurvegarinn fékk að vera gestadómari í umræddri fegurðarsamkeppni. Keppt var í janken, en það er japanska heitið á rock-paper-scissor (hefur sá leikur eitthvað íslenskt nafn? og ekki segja steinn, pappír, skæri eða eitthvað þvíumlíkt, það er bara alltof asnalegt). Og viti menn, hver haldiði að hafi rústað þessu annar en undirritaður sjálfur? (já ég veit að ég undirrita ekki beint færslurnar hérna en þetta skilst nú samt vonandi). Ég var semsagt dreginn uppá svið og spurður nokkurra spurning sem ég gerði mitt besta við að muldra svör við og síðan slóst ég í hóp dómaranna.
Þegar hér var komið að sögu þá var bara einn liður eftir í keppninni, en það var búningasamkeppnin. Stúlkurnar 6 stigu semsagt hver á eftir annarri fram á sviði og sýndu búninginn sinn, en búningarnir samanstóð af hefbundnum kínverskum kjól, OL (jakkaföt sem kvennfólk í skrifstofuvinnu klæðist oft hér í Japan), Santa-san (Japanir kalla Heilagan Nikulás það, og nei hún var ekki með gerviskegg og kodda undir jakkanum - búningurinn var aðeins meira eggjandi en það), hefbundinn japanskur skólabúningur, kimono, og svo var eitthvað samansull af skólabúningi og íþróttabúningi. Síðan var hafist handa við atkvæðagreiðslu og kom í ljós að sú í kínverska kjólnum bar sigur úr b(í/ý)tum. Sjálfum kaus ég Santa-san, en sú kínverska var alveg þokkalega sexý svo ég var svosem ekkert fúll yfir útkomunni.

Þegar þessum ósköpum var lokið röltum við einn hring um hátíðarsvæðið og borðuðum kvöldmat og héldum svo heim.
Á sunnudaginn dröslaðist ég svo ekki á lappir fyrr en um 1 leytið og fór þá aftur á hátíðarsvæðið til að borða morgun-/hádegisverð og var það bara ansvilli ljúft en fyrir vikið varð ekkert úr ferð minni á sædýrasafnið en það verður bara síðar.

Í gær, mánudag, skrapp ég yfir til Kyoto eftir skóla, aðallega til að kíkja á Kiyomizu-dera í annað sinn en mér hafði verið bent á að fara þangað í lok október/byrjun nóvember því að haustlitirnir væru mjög fallegir þar. Þegar ég var svo kominn á svæðið var nú bara alls ekkert mikið um haustlitina, kannski af því að það er búið að vera óvenjulega hlýtt hérna um nokkurt skeið eða eitthvað, ég veit ekki alveg hvernig þetta virkar. Það var nú að vísu eitthvað aðeins komið af haustlitum og ég smellti af fjölmörgum myndum þannig að einhverjar hljóta að hafa tekist vel, og ætli ég setji ekki einhverjar myndir upp hérna svona þegar ég kem því að, en á núverandi hraða þá verður það einhverntimann árið 2007.

föstudagur, nóvember 03, 2006

Menningardagur

Já í dag er menningardagur hér í Japan, en það er frídagur svo það er frí í skólanum jei!
Annars er það héðan að frétta að ég er sloppin úr einhverri mestu prófahrinu sem ég hef lent í síðan í stúdentsprófunum, en henni lauk í gær með tveim prófum. Svo er ég líka búinn að fá útkomuna úr miðannarprófunum og í stuttu máli fór það svona: 8.7, 8.9, 9.0, 9.2
Þeir sem fylgjast vel með hérna hafa hugsanlega tekið eftir því að ég tók í allt 5 miðannarpróf, en þetta eru bara 4 einkunnir. Hmnmm. En það er einföld skýring á því: það voru 2 próf í einu faginu, munnlegt og skriflegt, og gefin sameiginleg einkunn fyrir þau.
Núna eru prófin semsagt búin í bili svo ég get farið að hafa áhyggjur af lokaprófunum í desember...

Í öðrum fréttum er það helst að í gær eftir skóla þá fór ég með nokkrum öðrum skiptinemum og "lékum" í stuttmyndaverkefni sem nokkrir japanskir nemar hér við KG stóðu fyrir, en það byggðist á því að kvikmynda skiptinema vera að búa til takoyaki. Það tókst bara nokkuð vel, en það var nú soldið skondið að Japanirnir voru ekki með það alveg á tæru hverning ætti að malla þennan japanska rétt, svo að amerísk stúlka sem var með okkur í þessu og hafi búið til takoyaki áður sá um að kenna okkur hvernig ætti nú að fara að þessu öllu saman. Þegar að myndin er svo tilbúin á víst að skella henni á netið, svo það er aldrei að vita nema að smelli upp tengli hérna svo þið getið hlegið ykkur máttlaus yfir henni.

Í dag ætlaði ég að vera duglegur, vakna snemma, og kíkja í sædýrasafnið í Osaka. En letin náði yfirhöndinni og ég svaf út og sit nú hérna að skrifa þetta. Ég reyni bara aftur á morgun eða hinn. Annars er víst líka einhver hátíð í gangi í skólanum núna um helgina og verða í gangi ýmis skemmtiatriði og "activities" þanning að ætli ég verði ekki að kíkja þangað annan hvorn daginn. En þá er þessi langa, fína helgi bara langt á veg komin.

Já svo má ekki gleyma því að á þriðjudaginn var hrekkjavaka, og þar sem við erum svo amerísk hérna þá var auðvitað haldið uppá það með pompi og prakt. Í lounge-inu í skólanum var stórt partí sem var nú mest bara troðningur og hávaði, en svo stóð hún Jessica fyrir litlu einka-partí hérna á heimavistinni þar sem við gerðum sitthvað sem hún tengir við hrekkjavökuna, eins og að fara í leiki, éta nammi, horfa á Casper, og borða pítsu - en það má geta þess að Domino's pítsurnar hérna í Japan eru verri en á Íslandi, ótrúlegt en satt.
Sjálfur nennti ég ekki að standa í því að ljósmynda þennan merkisdag, en ég fékk nokkrar myndir frá fólki sem var að mynda og hver veit nema ég skelli þeim upp hérna einhvern daginn (ásamt sake myndunum...). Sem betur fer fékk ég engar myndir af sjálfum mér eftir að fólkið þarna réðst á mig og klæddi mig upp á fáranlegan hátt þannig að ég hef góða afsökun fyrir að birta þær ekki, en hver veit nema ég komist yfir þær síðar.

Síðast en ekki síst, það er barasta kominn nóvember, en maður er ennþá í stuttermabolnum hérna. Þetta er nú afskaplega þægilegt veður, en ég verð nú að viðurkenna að ég sakna íslenska veðursins solidð.