miðvikudagur, apríl 29, 2009

Þýskur bjórkjallari í Sendai

Í gær þá álpaðist ég inn á þýskan bjórkjallara hérna í Sendai. Upphaflega var nú ekki planið að fara þangað enda er ég ekki mikill aðdáandi þýskrar matarmenningar - ef eitthvað er þá er hún á lægra plani en ensk matarmenning og þá er nú mikið sagt, jafnvel þó að kjöthlutfallið í þýsku pulsunum sé hærra - þó að þýski bjórinn sé auðvitað alltaf góður.
Við héldum af stað út í seinna lagi sem hafði tvær meginafleiðingar. Í það fyrra þá vorum við öll orðin alveg rífandi svöng og í annan stað þá voru liggur við allir staðir fullsetnir. Fyrstu tveir staðirnir sem við fórum á voru pakkaðir og sá þriðji var ekki opinn - þriðjudagar eru frídagar þar. Þannig að eftir 1.5klst labb og vonbrigði þá enduðum við semsagt á þessu þýska pleisi. Staðurinn kom bara nokkuð á óvart með hversu vel tókst við að skapa þýska stemmingu - bjórinn góður og maturinn vondur og sauerkrautið súrt - og bjór- og vínúrvalið koma alveg skemmtilega á óvart.
Sjálfur tók ég engar myndir af staðnum en þið getið séð nokkrar hérna: Brunnenheim - og ég get fullvissað ykkur um að náfölu hvítu pulsurnar bragðast jafn illa og þær líka út fyrir að gera.

laugardagur, apríl 25, 2009

Innipúkinn

Það er rigning útí. Og þá meina ég ekki einhvern smá úða eins og heima á klakanum, þó svo að hann ferðist lárétt en ekki lóðrétt eins og rigningin hérna. Nei hérna rignir svo mikið að það liggur við að það sé ekki hægt að mæla það í millimetrum - tölurnar verða of stórar - heldur eru sentimetrarnir hentugri.
Ég er þess vegna bara að pulla innipúkann á þetta. Gekk í smá þrif hérna áðan en annars er ég bara að taka lífinu með ró og glápa á imbakassann, m.a. úrslitakeppnina í NBA og síðan eru víst tímatökur í formúlunni á eftir. Er ég bara fegnastur því að þurfa ekkert að fara út úr húsi í dag.
Ykkur sem lesið þetta hvet ég hins vegar til að drífa ykkur út úr húsi í dag, skunda á næsta kjörstað og kjósa, og kjósa rétt - hvað svo sem það er.

miðvikudagur, apríl 22, 2009

Jarðskjálfti

Í gær þá var smá jarðskjálfti hérna á þessu svæði. Hann var nú bara litlar 3 gráður á japanska skalanum; hef ekki hugmynd um hvað það er á Richter er það er ekki það mikið.
Ég held nú að ég hafi fundið fyrir jarðskjálfta þegar ég var í Osaka á sínum tíma en ég man ekkert eftir því. Jarðskjálftinn í gær var allavega aðeins öðru vísi en ég er vanur heima á Íslandi. Í staðinn fyrir að hristast og hristast meira þá var eins og maður væri út á sjó að rugga rólega fram og til baka og hann varaði frekar lengi, kannski um mínútu eða svo ef ég ætti að giska. En svona fyrir utan það þá var þetta bara svona just another day at the office fyrir mig.

laugardagur, apríl 18, 2009

Hanami #2

Í gær, föstudag, var málvísindapakkið búið að plana hanami nema hvað að veðrið var alveg ömurlegt, rigning og hráslagalegt(?) þannig að við enduðum á því að hafa það bara innanhúss, í málvísindarannsóknarherberginu. Auðvitað var lítið um sakura tré að horfa á þar en það sýnir bara og sannar það sem ég minntist á síðan að það að dást að blómunum er bara aukaatriði - hanami snýst bara um að éta og drekka.



Undirbúningur á fullu


Í þetta sinn var heil ein dós af Asahi Super Dry á staðnum svo ég festi það á filmu fyrir Pétur


Gengið, orðið vel hresst


Mér var tjáð að þetta væri besta sake-ið frá Okinawa, en persónulega fannst mér voðalega lítið varið í það


Man ekkert hvað var í gangi þarna...

laugardagur, apríl 11, 2009

Hanami

Í dag fór ég á Hanami, en það er þegar fólkið hérna safnast saman í almenningsgörðum í hálfgerðri lautarferð með mat og drykk að dást að sakura-trjánum þegar þau eru í blóma. Almennt er það mjög illa séð að drekka áfengi á almannafæri hér í Japan, hvað þá að degi til, en á hanami leyfist það.
Við vorum reyndar heldur snemma á ferðinni því sakura-trén hérna eru ekki komin í fullan blóma enda svalara hér heldur en t.d. í Tokyo. Þar sem við vorum, í Nishi-koen (Vesturgarði), var líka ekkert sérlega mikið af sakura-trjám til að byrja með, en það sýnir bara og sannar að þetta er að mestu leyti tilefni til þess að sitja undir berum himni að sötra áfengi.


Útsýnið


Afi gamli að sníkja heimabruggað hrísgrjónavín frá Satoshi, en hann (Satoshi) hafði komið til Íslands og farið Gullna hringinn og alles.


Gengið - mjög alþjóðlegt; frá vinstri: Kórea, Japan, Rússland, Svíþjóð, Tævan, Ísland.


Verið að sturta öllum bráðnaða klakanum úr kæliboxinu. Gaurinn til vinstri heitir Nori og merkilegt nokk þá var hann nemandi við Kansai Gaidai á sama tíma og ég var þar sem skiptinemi.

fimmtudagur, apríl 09, 2009

Myndir

Jæja ég svissaði yfir í gamla sniðið aftur og er mættur með fyrsta myndaflóðið til að sjá hvernig það reynist.


Herbergið mitt séð frá dyrunum


Herbergið mitt séð frá svölunum


Rúmið mitt. Já það er hart.




Ekta japanskt hátækniklósett sem sprautar heitri vatnsbunu á bossann þegar ýtt er á takka.

mánudagur, apríl 06, 2009

Nýtt snið

Jæja setti nýtt snið á bloggin til prófunar. Mér finnst textinn vera full 'breiður' og ekki jafn læsilegur og á gamla blogginu, en kosturinn við þetta er að ég get þá sett inn hæfilega stórar myndir beint á bloggið. Annar möguleiki væri að hafa þetta svipað því sem það var, nema hvað að ég myndi bara setja myndirnar inn sem thumbnails sem þyrfti þá að smella á til að sjá fulla mynd.
Látið mig vita hvað ykkur finnst vera betri kostur hérna í athugasemdunum.

sunnudagur, apríl 05, 2009

Ferðasaga

Já, eldsnemma á miðvikudagsmorgni þá var haldið af stað út á Leifsstöð og þaðan flogið til London. Þegar þangað kom var mér tilkynnt að ég hefði verið bumpaður upp í business class, þannig að á meðan ég var að bíða eftir fluginu til Tokyo þá hafi ég það bara mjög rólegt í JAL loungeinu á Heathrow, sat í þægilegum stól og hafði eins mikið af drykk og snarli eins og ég gat í mig látið.
Um borð í flugvélinni fór ekki síður vel um mig. Ég sat í hálfgerðu geimskipi með alveg endalaust fótapláss og með því að ýta á einn takka þá lagðist það alveg flatt. Maturinn var síðan ekki af verri endanum, hægt að velja á milli nokkurra máltíða og ég hugsa að ég hafi aldrei farið svona fínt út að borða á ævinni. Bragðið var hins vegar ekkert spes.
Nú þökk sé þessum þægindum (og svefnpillu frá pabba) þá hvíldist ég ágætlega í vélinni og lenti alveg þokkalega hress í Tokyo kl 13:00 að staðartíma. Á Narita-flugvelli var síðan tekið á móti mér og ég sendur á hótel til að dvelja eins nótt og lestarmiði daginn eftir til Sendai. Ég nýtti því tækifærið og þvældist aðeins um Tokyo og kíkti á gamlar og kunnuglegar slóðir (Akihabara).
Næsta morgun dröslaðist ég síðan út á lestarstöð og fór með Shinkansen hraðlestinni til Sendai. Þar tók Kim, leiðbeinandinn minn, á móti mér og fór fyrst með mig á kampusinn þar sem ég hitti alveg endalaust af fólki sem ég man ekkert hvað heita áður en við héldum að lokum á heimavistina, þar sem ég sit og skrifa þetta.
Í gær, laugardag, tók ég því svo mest rólega. Tók einn labbitúr um hverfið hérna til að kynna mér það og verslaði aðeins inn, og skrapp síðan niður í miðbæ en þar var fjörlegt enda laugardagseftirmiðdagur og lagðist pleisið bara ágætlega í mig.
Í dag er síðan planið að skreppa í smá verslunarleiðangur - ennþá ýmsar nauðsynjar sem mig vantar - og síðan er smá welcome party hérna á heimavistinni í kvöld sem ég hugsa að ég reyni að kíkja í.
Á morgun hefst síðan alvaran. Þarf að fara að útrétta ýmislegt sem ekki er hægt um helgar: fara í ráðhúsið fyrir "alien registration", fara í bankann og/eða pósthúsið að opna reikning og líka að borga einhverja reikninga, og síðan er örugglega eitthvað meira sem ég er að gleyma. Þegar það er allt búið þá gefst kannski tími til að fara að huga aðeins að náminu sjálfu.

Að lokum bara smá aðvörun að ég ætla að reyna að breyta uppsetningunni á blogginu aðeins, m.a. til þess að allar myndir líti ekki út eins og hér að neðan þannig að ef þið kíkið hingað og allt er í ruglinu þá er það (vonandi) bara tímabundið.