miðvikudagur, febrúar 24, 2010

Skautaferð

Núna um daginn skruppum við (við rannsóknarnemarnir 3 og ein stelpa líka úr málvísindunum) á skauta, sem ég hafði ekki gert í mörg mörg ár. Held ég hafi síðast farið einhvern tíman þegar að það var nýbúið að byggja yfir skautasvellið í Laugardalnum, hvenær sem það nú var.
Nú þetta byrjaði reyndar og endaði með hjólaferð, en það tók um 1 tíma hvora leið að skautahöllinni. Síðan reimaði maður bara á sig skautana og fór af stað.



Ég skal nú alveg viðurkenna að ég var svolítið valtur í upphafi...



...en þetta er nú bara eins og það að hjóla held ég, ef maður hefur lært það eini sinni þá er gleymir maður því aldrei og það leið ekki lengi þangað til ég var orðinn bara ansvilli flinkur þó ég segi nú sjálfur frá.



Kók-auglysingin í bakgrunni tekur sig bara einkar vel út finnst mér.

Hópmyndir:





Eftir að hafa rennt okkur um á skautunum að hjartans lyst í hátt í 3 tíma að ég held þá var tími til kominn að hjóla aftur löngu leiðina heim. En fyrst var komið við á færibanda-sushi veitingastað og fengið sér gott í gogginn. Þar fengu sér sumir krabbasúpu sem innihélt hálft kvikindi, en svona eftirá þá get ég varla sagt að það pinkulitla kjöt sem kom út úr greyinu hafi verið vinnunnar virði

mánudagur, febrúar 22, 2010

Íbúð hæf mönnum (og konum)

Sæl öllsömul og takk fyrir afmæliskveðjurnar.

Síðan ég bloggaði hérna síðast þá hefur ýmislegt borið á daginn sem mig hefur langað til að blogga um. Hins vegar var það þannig að síðan ég flutti inn í nýju íbúðina fyrir næstum 2 vikum síðan - og alveg þangað til í dag - þá hef ég verið skrifborðs- og stólslaus af völdum tímabundins peningaskorts. Ég hef því lifað lífinu - eða þess tíma lífsins sem ég hef varið hérna heima - á dýnunni minnu. Á henni hef ég sofið, borðað, lesið og hangið í tölvunni. En ég hékk nú reyndar ósköp lítið í tölvunni því mér finnst svo óþægilegt að sitja við hana á gólfinu og hef því einfaldlega ekki endst í það að skrifa eitthvað hérna.

En allavega, í dag fékk ég loksins borð og stól í póstsendingu og eftir u.þ.b. 2klst við að setja dótið saman (ætli stór hluti tímans hafi ekki farið í að opna kassa og grafa upp úr þeim) þá sit ég núja við þetta fína skrifborð í þessum þægilega stól, eins og meðfylgjandi myndir sýna.


Skrifborð


Stóll


Saman

Í gær fékk ég líka annað sem kemur sér vel að hafa:



Já þessa fínu þvottavél

Og ekki bara það heldur fékk ég um daginn 3 rafmagnstæki saman á góðu verði:

Örbylgjuofn, rafmagnsketil og grjónapott (sem er ekki á myndinni, á eftir að finna pláss fyrir hann)

Og þá komum við loks að titli færslunnar, en ég tel þetta núna loksins vera íbúð hæf mönnum (og konum)!

föstudagur, febrúar 12, 2010

Loksins!

Í dag leið loks upp langþráð stund. Klukkan 9:00 (að japönskumm tíma) þá voru niðurstöðurnar úr inntökuprófunum birtar. Til að gera...stutta sögu...jafn langa og hún er, þá stóðst ég það, og mun því ganga inn í meistaranámið í málvísindum hérna við Tohoku háskóla þann 1. Apríl n.k.

miðvikudagur, febrúar 10, 2010

Fleiri myndir

Jæja eftir viðburðaríkan dag þar sem ég fór og keypti loks gluggatjöld og leslampa, og fékk ísskápinn sem ég pantaði fyrir helgi loksins afhentan þá ákvað ég bara að láta reyna á það og tel ég mig nú fluttan í nýju íbúðina. Það vantar nú ennþá alveg heilmikið, en nú hef ég allavega það minnsta sem þarf til að þrauka í nokkrar vikur þangað til allt er komið í stand.
Hér að neðan fylgja síðan nokkrar myndir af ástandinu.




Skóhillan (sem fylgdi með íbúðinni. Ósköp á ég mikið af skóm.



Ísskápurinn mættur á sinn stað. Ekkert sérlega stór en hann mun samt duga vel. Nóg pláss í frystinum og svona. (Já og brauðristin er með cameo þarna)



Tannburstinn (og fleira) komið á sinn stað.



Leslampinn.



Gluggatjöldin í öllu sínu veldi (ásamt fartölvunni minni og tímabundnu "borði" fyrir hana).



Og þarna mun ég sofa í fyrsta sinn í nótt.

Nóg í bili, farinn að slæpast meira.

föstudagur, febrúar 05, 2010

Myndir af nýja pleisinu

Eins og ég var búinn að lofa þá koma hér myndina af nýju íbúðinni. Þær voru teknar á mánudaginn þegar ég var tiltölulega nýbúinn að fá lykillinn afhenta svo eins og þið sjáið þá er hún að mestu leyti auð. Síðan þá hefur ekki mikið breyst en ég er búinn að kaupa dýnu til að sofa á og síðan er ég búinn að panta ísskáp sem kemur vonandi í næstu viku og þá get ég byrjað að búa þarna.



Eldhúsið. Ekki mikill glamúr þar, en dugir svosem ágætlega fyrir einstæðan nema.



Baðherbergið. Það er lítið og þröngt en það er þó baðkar þar. Og viti menn, baðmottan komin á sinn stað!



Eins og sést inn í herbergið frá útidyrunum.



Séð frá glugganum (sjá myndina á undan) og að útidyrahurðinni.



Skáparnir. Eins og sést þá er enginn skortur á skápaplássi þarna. Núna þar maður bara að byrja að sanka að sér drasli til að fleygja þangað inn.



Séð út um gluggann. Eins og sést þá er útsýnið ekkert spes. Maður verður bara að stara eitthvert annað.

Þetta var allt í bili, en ég fleygi kannski í ykkur fleiri myndum þegar ég búinn að koma mér aðeins betur fyrir og kannski líka mynd af húsinu sjálfu.